Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, biður þjóðina um að halda ró sinni þótt útlitið sé ekki gott. Hann sagði í Morgunþætti Ríkisútvarpsins í dag að allt stefni í svipaða niðursveiflu hér á landi og í efnahagshruninu 2008/2009 með miklum samdrætti í landsframleiðslu og mörg hundruð milljarða halla á ríkissjóði.
„Ég held að það sé lang best að vera hreinskilinn með það að við erum á leiðinni inn í krísuna. Þetta er rétt að byrja,“ sagði Bjarni í þættinum og benti á að langur tími muni líða þar til botninum verði náð.
Aðspurður um mögulega ríkisaðstoð við kerfislega mikilvæg fyrirtæki á borð við Icelandair, sagði fjármálaráðherra að ríkisstjórninni bæri að tryggja samgöngur til og frá landinu. Sama gilti um vöruflutninga.
„Ég er sammála því að þetta er eitt mikilvægasta ef ekki mikilvægasta fyrirtækið sem starfar á Íslandi í dag,“ sagði Bjarni í viðtalinu.