„Um allnokkurt skeið hafa sögusagnir verið á kreiki um að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hyggist láta af formennskunni innan skamms. Bjarni sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að enginn fótur væri fyrir þeim sögusögnum.“
Þannig hefst stutt frétt, sem merkt er Agnesi Bragadóttur, í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Bjarni að sér leiddist það heldur að þurfa ítrekað að svara svona tilhæfulausu slúðri.
„Ég hélt að ég þyrfti bara að svara þessari spurningu einu sinni, en svo reynist ekki vera. Það þýðir auðvitað ekkert að ergja sig á því, svo ég læt mig bara hafa það að svara þegar ég er spurður, þótt leiðigjarnt geti verið,“ sagði Bjarni.
„Það er enginn fótur fyrir þessum endurteknu sögusögnum. Þessar sögusagnir eða slúður má að mínu mati rekja til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, sem óska þess helst að ég hætti. Ég lít einfaldlega á slíkar óskir sem hrós, en þeim mun ekki verða að ósk sinni, því það er ekki að fara að gerast að ég hætti sem formaður flokksins,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ennfremur í samtali við Morgunblaðið.