Kveiksþáttur Ríkisútvarpsins í gærkvöldi, sem snerist að uppistöðu til um gjaldmiðil þjóðarinna, var „samfelldur áróður gegn íslensku krónunni, sem þó hefur verið einn grunnurinn að miklum hagvexti undanfarinn áratug, verulegum kaupmáttarvexti og háu atvinnustigi,“ segir Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann bendir á að með þessum gjaldmiðli höfum við Íslendingar náð einhverjum bestu lífskjörum á byggðu bóli. „Mér fannst þessi þáttur eiginlega hneyksli, svo margt var slitið úr eðlilegu samhengi og röngu ljósi varpað á heildarmyndina,“ segir hann og bætir við:
„Látið var að því liggja að það séu einhvers konar forréttindi þeirra sem hafa meginþorra sinn í annarri mynt að gera upp í þeirri sömu mynt. Síðan svona í hálfkæringi sagt að með því að þessi fyrirtæki væru með peninga í útlöndum væri hætta á að þeir kæmu aldrei heim. Þetta ætti t.d. við um sjávarútvegsfyrirtæki. Hverju sætir þetta?
Jón Daníelsson gerði vel í að útskýra fyrir þáttargerðarmanni að þetta væri alls ekki óeðlilegt, þótt mér þættu innskotin einkennilega klippt til eins og til að gera lítið með þessi sjónarmið. Það mátti ráða af þættinum að eftirsóknarvert væri að heimilin fengju að gera upp í erlendri mynt. Þar vantaði tilfinnanlega umræðu um gengisáhættu og upprifjun á því hvernig það endaði síðast þegar það var gert. Hafa menn ekkert lært, öllu gleymt?
Í heildina skorti í þennan þátt allt jafnvægi, alla fagmennsku og yfirvegun í efnahagslega samhenginu. Það er hálf sorglegt að boðið sé upp á svona efni á Ríkisútvarpinu.“