Atburðir undanfarinna daga, vikna og missera í Sjálfstæðisflokknum sýna, svo ekki verður um villst, að Bjarni Benediktsson telur sig hafa full tök á flokknum sem formaður, enda þótt gefið hafi hressilega á bátinn í skoðanakönnunum og fjölmargir flokksmenn yfirgefið hann.
Með vali sínu á dómsmálaráðherra í gær hefur Bjarni endanlega gefið svonefndu fýlupokabandalagi innan þingflokksins langt nef og skilaboðin eru skýr: Bjarni hefur nákvæmlega engar áhyggjur af þeim þingmönnum sem látið hafa ófriðlega og lýst óánægju sinni.
Brynjar Níelsson horfir fram á þá bláköldu staðreynd, að úr því hann varð ekki fyrir valinu í gær sem ráðherra þess málaflokks sem hann gjörþekkir sem fv. formaður Lögmannafélagsins, er hægt að slá því föstu að hann verði aldrei ráðherra undir forystu Bjarna Benediktssonar.
Páll Magnússon horfir fram á sömu stöðu sem fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sama á við um Harald Benediktsson oddvita flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Jón Gunnarsson, einn þeirra sem skipar hið svonefnda fýlupúkabandalag er jafnframt úti í kuldanum og ráðherratíð hans varð stutt. Hann hótar stjórnarslitum fyrir hönd þingflokksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segir:
„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax.“
Tilefnið eru áform umhverfisráðherra um friðlýsingar, sem munu hafa stórfelldar takmarkanir í för með sér fyrir auðlindanýtingu og virkjanir í framtíðinni.
Íhaldsamari kjósendur leita til Miðflokksins
Fýlupúkafélagið (Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson og Páll Magnússon) skipa íhaldsamari arm þingflokksins ásamt fólki á borð við Ásmund Friðriksson. Þessi hópur horfir nú fram á að Miðflokkurinn bjóði upp á skýrari valkost fyrir íhaldsamari kjósendur á meðan forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að fara í átt að meira frjálslyndi og stilla sér upp sem valkosti við Viðreisn.
Nýjar tölur úr þjóðarpúlsi Gallup sýna strax merki um hvernig þessi þróun leggst í kjósendur. Í öllum stóru landsbyggðarkjördæmunum er Miðflokkurinn annað hvort að sigla fram úr Sjálfstæðisflokknum eða nálgast hann hraðfluga. Sigmundur Davíð er að ná forystu í Norðausturkjördæmi, Bergþór Ólason í Norðvesturkjördæmi og Birgir Þórarinsson í Suðurkjördæmi.
Fýlupúkafélagið er hálf vængbrotið gagnvart sínum helstu stuðningsmönnum eftir orkupakkamálið. Ekkert fengu liðsmenn þess þó í sinn snúð í ráðherrahrókeríngum Bjarna Benediktssonar nú. Hans harðasti og innstri hringur herti þvert á móti tökin.
Í því ljósi verður að skoða hótanir Jóns Gunnarssonar nú um möguleg stjórnarslit. Vandi hans og annarra liðsmanna í fýlupúkafélaginu er sá að þeir hafa svo oft rokið upp með harmkvælum og hótað hinu og þessu án þess að standa nokkru sinni við stóru orðin, að ekki er lengur mikið mark tekið á þeim.
Það á við um málefni umhverfisráðherrans nú og fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra, svo dæmi séu tekin. Andstaða þessara ágætu manna við orkupakkann gufaði allt í einu upp. Og þannig mætti áfram telja.
Þess vegna hefur Bjarni Benediktsson greinilega engar áhyggjur af þeim lengur.