Af nógu er að taka þegar kemur að umræðu um útlendingamál þessa dagana, eins og öðrum tíðindum í pólitíkinni sem berast nú hratt og þétt. Eins og Viljinn fjallaði um gerði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, það nýverið að umtalsefni á facebooksíðu sinni að sér hefði reynst erfitt að fá svör um hvaða öryggisráðstafanir stjórnvöld hefðu gert vegna móttöku Palestínumanna frá Gasasvæðinu.
Í því samhengi nefndi hann dæmi frá nágrannalöndunum, m.a. ákvörðun Þjóðverja um að taka til landsins allt að 200 starfsmenn þýskra hjálparstofnana á Gasa. Eftir viðtöl við fólkið og bakgrunnsskoðun fékk helmingur þess ekki að koma til Þýskalands af öryggisástæðum.
Sigmundur sagðist ætla að leggja fram skriflegar fyrirspurnir um málið, en fyrir helgi notaði hann tækifærið til að kvarta undan svarleysinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma og spurði Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra út í málið og Bjarni svaraði:
„Fyrst vil ég halda því til haga hér að málefni hælisleitenda eru hjá dómsmálaráðherra og það er Útlendingastofnun sem tók ákvörðun um að veita dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í kjölfarið á því barst utanríkisráðuneytinu erindi í desember um að veita aðstoð þeim sem hefðu fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, við að komast út af Gaza. Það liggur fyrir að án aðkomu utanríkisráðuneytisins hefði þetta fólk allt getað komið til Íslands ef landamærin væru ekki lokuð.”
[…] „Það er í raun og veru Útlendingastofnunar að gæta að þessum öryggismálum sem hv. þingmaður spyr hér um og ég tek undir að eru mikilvægur þáttur í heildarferli svona mála. Það sem við höfum gert í utanríkisráðuneytinu er að halda ríkislögreglustjóra upplýstum.”
Í dag kvaddi svo Sigmundur Davíð sér aftur hljóðs á þingi og fylgdi fyrirspurninni til Bjarna eftir með því að inna Guðrúnu Hafsteinsdóttur eftir viðbrögðum hennar við fyrirvörum Vinstri grænna við útlendingafrumvarpi ráðherrans. Þótti honum svörin til marks um undirgefni Sjálfstæðisflokksins við VG í málinu en bætti svo við:
„En hafandi fengið svar við fyrri spurningunni þá spyr ég núna eina ferðina enn, herra forseti: Til hvaða öryggisráðstafana hefur verið gripið vegna innflutnings ríkisstjórnarinnar á hælisleitendum frá Gaza?”
Guðrún Hafsteinsdóttir svaraði:
„Hváttvirtur þingmaður spyr hér um hvaða fyrirvarar, ef ég skildi hann rétt, hefðu verið settir vegna heimflutnings fólks frá Gaza. Það mál var á hendi utanríkisráðuneytisins og á forræði utanríkisráðuneytisins og þar hefur komið fram að listar voru sendir til egypskra og ísraelskra stjórnvalda og þessi hópur sem kom til Íslands kom eftir samþykki frá þeim stjórnvöldum.”
Þau Bjarni og Guðrún benda því hvort á annað og ef marka má þessar umræður á þingi, er enn á huldu hvort utanríkis- eða dómsmálaráðuneytið og stofnanir þeirra fara með þann þátt þessa umdeilda máls sem varðar öryggisráðstafanir íslenska ríkisins og þjóðarinnar. Nema hann liggi hjá egypskum og ísraelskum stjórnvöldum?