Bjarni skiptir strax um ráðuneytisstjóra

Ráðuneytisstjórarnir Benedikt Árnason og Bryndís Hlöðversdóttir hafa skipt um starfsvettvang.

„Samkomulag hefur náðst milli forsætis- og matvælaráðherra og ráðuneytisstjóra í þeim ráðuneytum um flutning hlutaðeigandi ráðuneytisstjóra milli ráðuneyta,“ segir í stuttri yfirlýsingu á vef stjórnarráðsins í morgun.

Í breytingunni felst að Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar (og áður samherji Katrínar Jakobsdóttur í Alþýðubandalaginu) og ríkissáttasemjari, mun frá og með 15. apríl 2024 taka við embætti ráðuneytisstjóra í matvælaráðuneytinu. Samtímis mun Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu, taka við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.

Viljinn hefur einnig heimildir fyrir því að annar háttsettur embættismaður í matvælaráðuneytinu, Kolbeinn Árnason (Kolbeinssonar fv. ráðuneytisstjóra) hafi gengið frá á skrifstofunni sinni um helgina, en hann mun ekki hættur heldur farinn í stutt frí.

Greinilegt er að nýr forsætisráðherra vill gera breytingar á æðstu stjórn ráðuneytisins og biður ekki boðanna í þeim efnum.

Benedikt starfaði hjá Þjóðhagsstofnun frá árinu 1988 til 1993 í hlutastarfi með námi og fullu starfi frá árinu 1993 til 1994. Árið 1994 tók hann við starfi skrifstofu- og fjármálastjóra hjá Vita- og hafnarmálastofnun og gegndi því fram til ársins 1995. Benedikt hóf störf í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu árið 1996. Fyrst sem deildarstjóri og síðar skrifstofustjóri fjármálamarkaðar og staðgengill ráðuneytisstjóra árið 1998 og starfaði sem slíkur fram til ársins 2004. Árið 2005 hóf Benedikt störf sem einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Norræna fjárfestingabankans í Helsinki og svæðisstjóri fyrir Ísland. Þar starfaði hann fram til ársins 2008 en þá tók hann við starfi sem aðstoðarforstjóri Askar Capital fjárfestingabanka hf. Síðar sama ár varð Benedikt forstjóri sama fyrirtækis og starfaði sem slíku fram til ársins 2010. Árið 2010 til 2013 var Benedikt aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins. Hann hóf störf árið 2013 í forsætisráðuneytinu sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar og gegndi embætti skrifstofustjóra skrifstofu stefnumála og síðar staðgengill ráðuneytisstjóra, uns Kristján Þór Júlíusson skipaði hann ráðuneytisstjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem þá var árið 2021.

Gera má því skóna, miðað við venjur og hefðir í stjórnkerfinu, að Bryndís fari í utanríkisþjónustuna fljótlega, enda þarf að bæta henni upp að vera tekin úr æðsta starfi íslenskra ráðuneytisstjóra og færð skör neðar.

*Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var Kolbeinn Árnason sagður hættur, en hann fór í frí. Hefur henni verið breytt í samræmi við það.