Athyglisvert hefur verið að fylgjast með því afreki ríkisstjórnarinnar að ná því sem talið var næstum því óhugsandi, að sameina flokkana í stjórnarandstöðu með áskorun um að þing verði hvatt saman til þess ð ræða hvalveiðimálið, Lindarhvolsmál og söluna á Íslandsbanka.
Á meðan nánast allt er gert til að stöðva frekari orkuöflun í landinu, verðbólgan leikur lausum hala og fjöldi starfsmanna Hvals horfir upp á óvæntan tekjumissi og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sakar matvælaráðherra um brot á lögum og stjórnarskrá og segir beinlínis ekki þingmeirihluta fyrir ákvörðun um að banna hvalveiðar, svarar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir erfið mál með því að segjast ekki hafa kynnt sér sérstaklega skýrslu setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvolsmálið, jafnvel þótt það varði beinlínis stjórnsýslu hans eigin ráðuneytis, og á fésbókinni svarar hann ákalli stjórnarandstöðunnar um að kalla þing saman með svofelldum hætti:
„Það er fallegt, næstum ljóðrænt, að sjá hvernig það gerist stundum að fólk sem maður hélt að væri ekki sammála um neitt getur skyndilega orðið alveg samhljóma og nánast eins og einn maður, sama hversu vitlaust málið er. Svona geta stjórnmálin verið uppbyggileg og sameinandi. Njótið blíðunnar.“
Vandinn í þessum efnum er bara ekkert stjórnarandstaðan, þótt vel sé skiljanlegt að ríkisstjórnin hafi minna en engan áhuga á að kalla þingið saman. Spyrjið hvaða sjálfstæðismann sem er að því. Þeir hugsa sitt í pólitíkinni þessa dagana, jafnvel þótt veðrið leiki loksins við okkur landsmenn. Og Bjarni Benediktsson er auðvitað fullmeðvitaður um það…