Boð til Viðreisnar? Vill taka höndum saman við gamla samherja

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill efla samstöðu meðal borgaralegra afla í landinu og segir mikilvægt fyrir sjálfstæðismenn að taka höndum saman með gömlum samherjum, því sú hætta sé raunverulega fyrir hendi að Sjálfstæðisflokkurinn og önnur borgaraleg öfl verði útilokuð frá landsstjórninni eftir næstu kosningar.

Eins og Viljinn hefur greint frá, áttu óformleg samtöl sér stað milli forystu Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar dagana eftir að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti að hún hygðist stíga niður sem forsætisráðherra. Margir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins töldu þá og telja enn, að samstarf með Viðreisn í stað Vinstri grænna væri líklegra til að koma nauðsynlegum baráttumálum áfram og styrkja pólitíska stöðu flokkanna fyrir næstu kosningar.

Niðurstaðan varð hins vegar áframhaldandi samstarf flokkanna þvert yfir hinn pólitíska ás, en undir nýrri forystu formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar.

„Nú og halda menn ekki að það breyti ekki stöðunni, stefnunni og dagskrárvaldi í íslenskum stjórnmálum að ríkisstjórnin sé leidd af þeim flokki sem hefur sterkasta lýðræðislega umboðið á Alþingi frá því síðast var gengið til kosninga.

Auðvitað skiptir máli að formaður Sjálfstæðisflokksins sé forsætisráðherra. Auðvitað hefur það áhrif að vinstri maður standi upp og hægri maður setjist í stólinn. Þetta blasir við. Hugsjónirnar skipta máli. Hugmyndafræðin skiptir máli. Að fylgja því í verki er grundvallaratriði. Og ég fullyrði að við öll í þing- og ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins gerum okkur grein fyrir þeim miklum kröfum og væntingum sem gerðar eru til okkar. Ég geri þær kröfur til mín sjálf. – Ég og við öll munum leggja allt undir til að standa undir þeim,“ sagði Þórdís Kolbrún.

En hún vék því næst að hinum tvístruðu borgaralegu öflum í landinu:

„Tíminn sem við höfum er ekki langur – um það bil 17 mánuðir. Það er margt hægt að gera á þeim tíma, sé viljinn til
staðar og samtakamátturinn. Og margt getur gerst. Baráttan fyrir næstu þingkosningar hafin. Það er aðeins undir okkur sjálfum komið hver uppskeran verður.

Þróun stjórnmálanna á síðustu árum hefur því miður verið með þeim hætti að staða borgaralegra afla hefur verið að
veikjast. Kraftar okkar hafa tvístrast og við höfum gefið pólitískum andstæðingum betri tækifæri en áður. Sú hætta er fyrir hendi að andstæðingum okkar takist að útiloka borgaraleg öfl frelsis, takmarkaðra ríkisafskipta og hófsamra skatta – frá stjórn landsins eftir næstu kosningar.

Þess vegna verðum við að binda aftur saman samherja sem eru í grundvallaratriðum sammála. Við eigum að segja við gamla samherja okkar – tökum höndum saman og berjumst fyrir því sem mestu skiptir. Það hlýtur að vera markmið okkar að vinna með fólki sem deilir þessari sýn.“