Boðar „algjörlega nýja nálgun“ í íslenskum stjórnmálum

Undarlega hljótt hefur verið um Miðflokkinn undanfarið, sé litið til þess að stutt er til kosninga og fylgi flokksins á nokkurri niðurleið. Nú er hins vegar búið að kynna framboðslista í öllum kjördæmum, halda landsþing um liðna helgi og formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson orðinn áberandi á samskiptamiðlum.

Í ræðu sinni um helgina boðaði Sigmundur Davíð einmitt að um næstu helgi efni Miðflokkurinn til sérstaks kynningarfundar, þar sem stefnumálin sem rædd voru og til lykta leidd á landsþinginu, verða kynnt sérstaklega. Sigmundur Davíð hefur mikla reynslu af því að stela senuninni í kosningabaráttunni og flokksmenn binda auðvitað vonir við það að sama gerist nú.

Þegar kemur að væntingastjórnun hefur formaður Miðflokksins sjaldan verið mjög lágstemdur og þetta hafði hann að segja um það sem nánar verður kynnt eftir fáeina daga:

„Þegar flokksmenn hafa lagt línurnar á þessu þingi mun ég fylgja því eftir með sérstökum kynningarfundi.
Þar fer ég yfir hvernig hægt er að ná stórum og mikilvægum markmiðum með algjörlega nýrri nálgun í íslenskum stjórnmálum. Þetta verða útfærslur sem virka og eru til þess fallnar að ryðjast í gegnum allar hindranir sem góðar hugmyndir og framfaraskref mæta yfirleitt. Allt verður þetta byggt á þeirri stefnu og þeim markmiðum sem við leggjum upp með á þessu þingi og samtölum mínum við fólk sem þekkir best til á sínu sviði.

Ég er svo sannfærður um að lausnir okkar muni virka að þegar ég lagði af stað í ferðalag um landið fyrir tæpum tveimur vikum lét ég konuna mína hafa drögin þannig að ef ég lenti í óhappi á leiðinni gæti hún komið þeim á framfæri og flokkurinn nýtt hugmyndirnar til hagsbóta fyrir landið.“

Það verður athyglisvert að fylgjast með framhaldinu.