Boðar til fundar í Valhöll: Sjálfstæðisflokkurinn að verða sósíaldemókratískur ESB-flokkur

Arnar Þór Jónsson fv héraðsdómari og nú varaþingmaður. / RAX.

Óhætt er að segja að Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, láti flokk sinn heyra það í ákalli sem hann birtir á fésbókinni í tilefni af fundi sem boðað er til í Valhöll, á morgun, þriðjudaginn 11. júlí, kl. 17, en það er aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Minnir Arnar á að félagið hafi verið stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn sé reistur á og sparar svo ekki kveðjurnar:

„Meðan flokksforystan og þingflokkurinn veigra sér við að leggja rækt við þessar rætur, þá hefur FSF brýnu hlutverki að gegna. Ég geri ráð fyrir að ávarpa fundinn á morgun og biðja fundarmenn að íhuga þá vegferð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á síðustu ár í átt til þess að verða einhvers konar sósíaldemókratískur ESB-flokkur, sem með athöfnum sínum (og athafnaleysi) heggur á hugmyndafræðilegar rætur sínar og lýðræðisþráðinn sem réttlætir tilvist hans, í skiptum fyrir þýlyndi og undirgefni við yfirþjóðlegt vald.

Æskilegt væri að sem flestir sæki fundinn og tjái þar hug sinn, t.d. til þess hvernig réttlæta megi frumvarp um bókun 35 gagnvart sjálfstæðisstefnunni og hvernig á því standi að þingflokkurinn sé afskiptalaus um atlögu forsætisráðherra að málfrelsinu, sbr. svonefnda aðgerðaáætlun um hatursorðræðu. Þetta eru samviskuspurningar sem varpa þarf fram eins og blýsökku til að kanna hvort núverandi þingflokkur sæki hugmyndir sínar á djúpmið eða grunnsævi. Þingmenn flokksins eru sérstaklega hvattir til að mæta og standa fyrir máli sínu,“ segir Arnar Þór.