Borgarfulltrúi segir kólnun hagkerfisins einmitt það sem stefnt hafi verið að

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

„Kalt hagkerfi – köld pláneta,“ tísti Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, þar sem hún virðist telja heilmikil tækifæri felast í efnahagshruninu sem er að verða í heiminum og hér á landi af völdum Kórónaveirunnar.

Hún segir kólnun hagkerfisins áhyggjuefni, „en gleymum því samt ekki að minni framleiðsla, minni eyðsla, færri flugferðir og minni mengun er samt nákvæmlega það sem við stefnum að,“ bætir borgarfulltrúinn við.

Hún bætir því við að markmiðið megi ekki verða að komast á sama stað aftur, sem hljóta að vera tíðindi fyrir alla þá sem eru nú að missa vinnuna af völdum veirunnar og þau fyrirtæki sem horfa nú jafnvel fram á rekstrarstöðvun eða alvarlegan skell af þessum völdum.