Borgarstjóri í fullkominni afneitun bendir á alla aðra

Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra við undirritun yfirlýsingar um lagningu Sundabrautar. Þrátt fyrir það er hún enn fórnarlamb endalausra tafaleikja stjórnmálamanna sem tala nýlensku.

Ef einhver einn einstaklingur ber mikla ábyrgð á þróun skipulags og borgarumhverfisins í Reykjavík á undanförnum árum og áratugum er það Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Þrátt fyrir að vera rétt aðeins kominn yfir miðjan aldur, hefur Dagur komið beint að töku stórra ákvarðana um borgarskipulagin í ríflega tuttugu og eitt ár og enginn annar haft meira um þau að segja.

Förum aðeins betur yfir þetta: Dagur kom inn sem handvalinn kandídat Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur inn í öruggt sæti hjá Reykjavíkurlistanum fyrir kosningarnar 2002 og varð í kjölfarið borgarfulltrúi. Tveimur árum síðar varð hann formaður skipulagsráðs, hann varð oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn árið 2006, borgarstjóri um skamma hríð á árunum 2007-2008, formaður borgarráðs 2010-2014 og síðan hefur hann verið borgarstjóri.

Engar stórar stefnumótandi ákvarðanir hafa verið teknar í borginni undanfarna tvo áratugi án aðkomu eða beinnar stjórnar Dags B. Eggertssonar, því hann er alltaf við stjórnvölinn, jafnvel þótt meirihlutarnir hans falli, eins og dæmin sanna. Það er alveg sama við kjósum í borginni, við fáum alltaf Dag í Ráðhúsið.

En þessi sami maður sló fingrum á lyklaborðið á fésbókinni í gær í tilefni af heldur erfiðri umræðu um borgarmál undanfarið, t.d. rusl sem er ekki sótt, borgarsjóð sem er á kúpunni og umferð sem liðast hægt áfram alla daga í borg sem gerir allt til að tefja fyrir einkabílnum. Og hann komst að þeirri niðurstöðu (mjög óvænt) að þetta sé öllum öðrum að kenna en honum.

„Þessi staða er bein afleiðing skipulags með ofuráherslu á einkabílaumferð og áherslna sem voru lengst af ofan á á höfuðborgarsvæðinu, allt frá 1960 eða svo,“ skrifar Dagur og bætir við: „Háværir hópar og einhverjir úr hópi eldri kynslóðar sérfræðing sem lærðu um það leyti sem þessi stefna varð ofan á trúa ennþá á að lausnin á þessu sé að halda þessari gömlu stefnu áfram. Það er því miður rangt.“

Þetta er maðurinn sem hefur keyrt áfram stefnuna um þéttingu byggðar, sem þýtt hefur stórhækkað fasteignaverð, allt of lítið framboð af lóðum á viðráðanlegu verði. Þetta er maðurinn sem veit að höfuðborgarsvæðið hefur ekki barist fyrir eða afsalað sér allskonar aðgerðum sem hefðu vel getað létt mjög á umferðinni, t.d. Sundabraut og göng undir Öskjuhlíð til að tengja Kópavoginn við Landspítalann og miðborgina. Á fjögurra ára fresti kemur þessi ágæti maður fram og segist í þann veginn að leggja stokk undir gatnamótin á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, undir hans stjórn var hafnað að leggja mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut og undir hans stjórn er allsstaðar verið að fækka akreinum, þrengja að umferðargötum og afnema beygjur sem liðka fyrir umferð; allt í þeim tilgangi að tefja umferðina og láta borgarbúa frekar taka strætó.

Og nú þegar formaður Sjálfstæðisflokksins er allt í einu vaknaður upp við vondan draum og búinn að fatta að varnaðarorð Sigmundar Davíðs um nýjan Landspítala og kostnað við borgarlínuna voru rétt allan tímann, vill hann staldra við og endurmeta allt dæmið. Ekki er skrítið að borgarstjórinn í Reykjavík óttist þá stefnubreytingu, því hann hafði með ótrúlegum hætti fengið ríkisstjórnina til að fjármagna hugmyndafræði Samfylkingarinnar um aðförina gegn einkabílnum.

Og auðvitað er það ekki það eina sem Dagur óttast. Hann á fáa mánuði eftir sem borgarstjóri og staða borgarinnar er vægast sagt ekki góð. Hann veit að Viðreisn á framtíð sína í landsmálunum undir að skilja sig frekar frá óráðsíunni í borginni. Og Framsókn þarf að mæta með gúmmíhanskana og hefja hreinsunarstörf.

Þess vegna er kannski ekkert skrítið að borgarstjórinn bendi á alla aðra í leit að ábyrgð.