Um skýrslu Seðlabankans um afdrif neyðarlánsins til Kaupþings, sem loks var birt í gær, mætti segja hið fornkveðna: Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús.
Enda ber fréttaflutningur af málinu þess merki að fátt nýtt hafi komið fram í skýrslunni, sem ekki er búið að fjalla ótal sinnum um áður.
Það er þó einkum ástæða til að staldra við kafla skýrslunnar um sölu Seðlabankans á FIH-bankanum í Danmörku, þótt vitaskuld sé fráleitt með öllu að stjórnendur Seðlabankans taki að sér að gerast dómarar í eigin sök.
Í skýrslunni segir:
„Mikið efni liggur fyrir um söluna á FIH og þær breytingar á samningnum um hana sem gerðar voru á árunum á eftir. Það er hins vegar ekki auðhlaupið að túlka það efni og setja saman í aðgengilegan texta án töluverðrar aðkomu þeirra sem stóðu í samningunum. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða starfsmenn sem hafa verið mjög önnum kafnir í öðrum verkum. Reynt hefur verið að fylgja þeirri meginreglu í starfi Seðlabankans á undanförnum árum að úrlausnarefni nútíðar og framtíðar hafi forgang umfram málefni fortíðarinnar.“
Það var og.
Það tók semsé fjögur ár að vinna þessa margboðuðu skýrslu, en allan þennan tíma gafst bara aldrei tími til þess að ræða við þá sem komu að sölunni á FIH vegna anna. Í öll þessi fjögur ár voru þeir svo rosalega uppteknir að það var bara ekki hægt að tala við þá.
Málatilbúnaður þessi og orðalag af hálfu bankans minnir mjög á það sem viðhaft hefur verið í svonefndu Samherjamáli. Og raunar almennt þegar kemur að hinu margfræga gjaldeyriseftirliti bankans, sem alls staðar fór erindisleysu.
Seðlabankinn er svo sannarlega ríki í ríkinu.