Innherji, nýr sjálfstæður vefur um pólitík og viðskipti á Vísi, fer af stað með látum enda þungavigtarfólk við stjórnvölinn. Sérstaklega er fagnaðarefni að Ólöf Skaftadóttir sé farin að skrifa aftur, enda fáir betur tengdir í íslensku samfélagi en hún.
Heillöng fréttaskýring hennar um borgarmálin í dag er fróðleg lesning, ekki síst þau tíðindi sem hún flytur af Brynjari Níelssyni, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins:
„Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, hefur auk þess verið hvattur af ýmsum sem Innherji ræddi við til að taka af skarið og reyna fyrir sér í borgarmálunum. Sjálfur segist hann ekki ætla í toppslaginn, en gæti vel hugsað sér sæti neðar á lista. Sjálfstæðisflokkurinn sé í dauðafæri í borginni, að hans mati.“
Og ekki er síður athyglisvert að lesa það sem stendur um möguleika Sjálfstæðisflokksins til að komast aftur í meirihluta í borgarpólitíkinni og hvort núverandi leiðtogi, Eyþór Arnalds, eigi þar meiri möguleika en Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, sem margir telja að muni skora hann á hólm í prófkjöri:
„Eyþór og Hildur hafa ólíka sýn á borgarmálin líkt og dæmin sanna, en Eyþór er talinn tilheyra hinum íhaldssama armi flokksins og Hildur hinum frjálslynda armi. Samkvæmt heimildum Innherja semur borgarfulltrúunum tveimur þó vel. Bæði hafa þau til að mynda gagnrýnt mjög rekstur borgarinnar og verið býsna samstíga þar.
Áhugavert verður, ef af oddvitaslag milli þeirra verður, að sjá hvar hinn almenni Sjálfstæðismaður stendur í grundvallarspurningum um framtíð Reykjavíkurborgar en þar er helsta aðgreiningin milli borgarfulltrúanna tveggja. Þá mun eflaust skipta flokksmenn máli hvort þeirra telst líklegra til að leiða flokkinn til sigurs og í framhaldinu inn í meirihlutasamstarf.“