Brynjar segir stjórnarsamstarfið mjög þungt núna: Gengur ekki svona lengur

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Þetta er mjög þungt núna,“ segir Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins um ríkisstjórnarsamstarfið. Hann segir það blasa við öllum sem vilji sjá það og þótt hann sé varaþingmaður stjórnarflokks og styðji ríkisstjórnina í þeim skilningi, geti hann ekki lýst stöðunni öðruvísi.

„Þetta er mjög þungt. Það næst ekki samstaða um mikilvæg mál,“ bætti Brynjar við og sagði einkenni á samstarfinu að menn væru „alltaf að kyngja og þegja“ en allir vissu að risastór mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar, til að mynda raforkumál, hælisleitendamál eða glíman við verðbólguna væru meira og minna í uppnámi.

„Það verður bara að segjast eins og er, að ekki verður séð að það sé mikil samstaða um aðgerðir í þeim málum og þá kannski gerist heldur ekki mikið. Ég ætla ekki að vera svo svartsýnn að útiloka að komist verði að einhverri skynsamlegri niðurstöðu, en sá tími er bara að renna út,“ sagði Brynjar og bætti við: „Það er eins og menn haldi að vandinn bara hverfi við það að gera ekki neitt, en það er auðvitað ekki þannig.“

Í samtali við þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason í jólaþætti Hlaðvarps Miðflokksins, Sjónvarpslausum fimmtudögum, sagðist hann ekki bjartsýnn frekar en Jón Gunnarsson flokksbróðir hans á að hægt væri að leysa brýn mál í þessu stjórnarsamstarfi og í sínum huga gangi þetta ekki lengur. Þess vegna hljóti að koma í ljós á fyrstu vikum nýs árs hvort hægt sé að halda samstarfinu áfram. „Þetta bara blasir við öllum og þarf ekki Brynjar Níelsson til að segja þetta,“ bætti hann við.

Hægt er að hlusta á spjall þremenninganna í Miðvarpinu með því að ýta á tengilinn hér að neðan.