Bubbi kemur Bjarna og ríkisstjórninni til varnar

Hugleiðing dagsins er í boði tónlistarmannsins Bubba Morthens sem hefur ekki frekar en aðrir misst af harðri gagnrýni margra sjálfstæðismanna á stjórnarsamstarfið.

Bubbi talar í færslu á fésbókinni um „gömlu sáru kallana“ í Sjálfstæðisflokknum sem væli vegna þess að „rassinn kemst ekki fyrir í stuttbuxunum“ eins og hann orðar það og spyr hvers vegna allt sé að fara til fjandans yfir því að Bjarni Benediktsson formaður flokksins og fjármálaráðherra hafi sýnt kjark og þor með því að fara í samstarf við þá flokka sem mynda ríkisstjórnina. Það sama eigi við um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formann Vinstri grænna og Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins og innviðaráðherra.

„Mér finnst magnað að fólk sýni vilja til þess að vinna saman eins ólík og pólitíkin þeirra er, svo geta allir drullað yfir þau,“ segir Bubbi. Hann kveðst alltaf sjá betur og betur mikilvægi þess að reyna að vinna saman, en ekki hver í sínu horni.

„Það kostar málamiðlun hjá öllum,“ bætir hann við, en Vilhjálmur Árnason þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokknum, sagði í gær að tími málamiðlana væri liðinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og stefna flokksins í mörgum málaflokkum yrði að koma skýrar fram.