Býður Miðflokkurinn Brynjari og Sigríði Andersen yfir til sín?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra.

Ein af stóru tíðindunum í velheppnuðu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina hljóta að vera afhroð Sigríðar Andersen fv. dómsmálaráðherra. Sem oddviti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna í síðustu kosningum sóttist hún eftir sama hlutskipti nú, þ.a. öðru sæti í prófkjörinu, en niðurstaðan varð allt önnur og verri og að endingu náði þingkonan ekki að vera meðal átta efstu manna.

Langt er síðan sitjandi þingmaður hefur fengið viðlíka útreið og böndin hljóta að berast að tveimur málum sem Sigríður hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu. Annað er Landsréttarmálið sem varð til þess að hún sagði af sér sem ráðherra og hefur æ síðan þróast með afar óheppilegum hætti, en hitt er einörð andstaða hennar við sóttvarnaráðstafanir þríeykisins svokallaða og ríkisstjórnarinnar. Má segja, að hún hafi mótmælt flestum ef ekki öllum ákvörðunum í baráttunni gegn COVID-19 undanfarna 18 mánuði eða svo.

Þetta sætti töluverðum tíðindum, enda hefði Sigríður verið æðsti yfirmaður almannavarna ef hún hefði áfram verið í hlutverki dómsmálaráðherra, en svo virðist sem kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hafi fremur valið að fylgja þríeykinu en henni að málum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafði enda sagt í Hlaðvarpi Viljans á dögunum, að Sigríði væri frjálst að hafa sínar skoðanir á þessum málum, enda þótt hann teldi hana hafa rangt fyrir sér í öllum aðalatriðunum. Líklegt væri að kjósendur myndu segja sína skoðun á framgöngu hennar í aðsteðjandi prófkjöri. Þar hitti hann sannarlega naglann á höfuðið.

Hvort þar með er síðasta sagan af Sigríði í stjórnmálum sögð skal ósagt látið. Brynjar Níelsson, sem tekið hefur undir margt í málflutningi hennar í farsóttarmálum, fór heldur ekki vel út úr prófkjörinu. Líklegt er að forystumenn Miðflokksins muni bera víurnar í þau bæði, enda má segja að flokkurinn hafi með úrslitunum í prófkjöri helgarinnar færst lengra í átt að Viðreisn en frá málefnalegri samkeppni við Miðflokkinn um hið íhaldsama hægri í íslenskum stjórnmálum. Það gæti aukið möguleika Miðflokksins verulega í framhaldinu.