Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur verið duglegur undanfarið við að halda stjórnvöldum og sveitarfélögum við efnið í húsnæðismálunum, enda ekki vanþörf á. Í Morgunblaðinu í dag bendir hann á að „alger upplýsingaóreiða“ sé hér á landi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis; sveitarfélögin verði að úthluta fleiri lóðum og til aðila sem ætli sér að byggja upp, en ekki maka krókinn á sölu í framhaldinu til þriðja aðila, með tilheyrandi aukakostnaði fyrir íbúðakaupendur og töfum á uppbyggingu.
Sigurður hefur hér lög að mæla. Í ráðuneytum og sveitarfélögum eru oft gefnar upp tölur sem gefa til kynna að miklu meiri uppbygging sé í gangi, en raunin er. Þá er annað augljóst vandamál, sem bent hefur verið á í viðræðum verkalýðsforystunnar og atvinnulífsins við stjórnvöld, að lykilgögn eru ekki rétt og þar af leiðandi ekki hægt að miða út frá þeim.
Dæmi um þetta eru byggingarhæfar lóðir, sem tiltekið er að standi verktökum til reiðu. Svo þegar nánar er að gáð, kemur í ljós að þessar byggingarhæfu lóðir eru alls ekkert byggingarhæfar; sumar þeirra eru jafnvel enn með húsnæði á sem þarf þá fyrst að rífa með tilheyrandi kostnaði og vinnu og græja í kjölfarið lóð fyrir nýjar byggingar. Ferli sem kostar mikið fjármagn og tekur mikinn tíma. Semsé alls ekki byggingarhæfar lóðir hér og nú.
Það er rétt sem Sigurður Hannesson segir í Morgunblaðinu, að þegar neyðarástand ríki á húsnæðismarkaði sé engum greiði gerður með slíkri upplýsingaóreiðu. Það passar og við annað sem haldið hefur fram, að aukning sé í íbúðauppbyggingu, þegr tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segja allt annað. Minna má, að Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gerði þetta að umtalsefni á ársfundi atvinnulífsins í vetur og benti þá á hið augljósa, að fólk gisti hvorki í viljayfirlýsingum né glærukynningum.
Það þarf að byggja miklu meira, skapa hvata til þess og útvega hagkvæmar lóðir, ekki aðeins á dýrum þéttingarreitum sem hafa gengið kaupum og sölum hjá fasteignafélögum. Ef ætlunin er að leysa húsnæðisvandann og koma böndum á verðbólguna, verður að breyta um takt strax. Og kannski byrja að segja sannleikann og tala út frá staðreyndum.
Það væri góð byrjun.