Byltingin á samfélaginu sem má helst ekki ræða

Viljanum hefur borist svofellt bréf frá sendanda, sem ekki vill láta nafns síns getið:

„Ég hef fylgst vel með því, sem þú hefur sagt og skrifað um stjórnmálaástandið – þ.á.m. um forsetakosningarnar.  Margt hefur þú þar sagt, sem vakið hefur góða athygli.  Mikið er um þá hluti rætt og ritað af bæði þér og öðrum.  Eitt þykir mér þó vanta.  Umræðuna um þá miklu breytingu á samfélaginu, sem deilurnar um  forsetaembættið  varpa skærustu ljósi á…

Á árum áður sátu nánast engar konur á Alþingi.  Hjá Krötum var engin kona uns Jóhanna kom til leiks og var þar ein kvenna um mörg ár þar til Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin.  Í ríkisstjórnum sátu ein til tvær konur, stundum.  Allir aðrir ráðherrar voru karlar.  Sama máli gegndi um áberandi forystumenn bæði í stjórnkerfinu sem og í atvinnulífinu.  Allir sýslumenn karlar.  Alir bankastjórar karlar.  Allir ráðuneytisstjorar karlar.  Allir flokkaformenn karlar. 

Á aðeins einni mannsævi hefur þetta gerbreytst.  Konur um helmingur allra þingmanna.  Konur jafnvel fleiri en karlar á ráðherrastól.  Kona bankastjóri stærsta bankans, Landsbanka.  Kona var líka bankastjóri Íslandsbanka þangað til að hún þurfti að víkja vegna afskipta fjármálaeftirlitsins.  Kona ríkissaksóknari.  Kona lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sem og kona lögreglustjóri á Akureyri.  Kona ríkislögreglustjóri.  Þrjár konur kepptu um forsetastól – enginn karlmaður nálægur.  Og hvað um horfurnar um stjórnmálaforystu?  Kona væntanleg sem formaður Sjálfstæðisflokksins innan skamms, þegar Bjarni hættir – tvær konur munu þar keppa.  Kona formaður Framsóknarflokksins þegar Sigurður Ingi hættir.  Kona orðin formaður Samfylkingarinnar.  Kona (Svandís) örugglega næsti formaður VG þegar kemur innan skamms að formannskosningu.  Kona formaður Viðreisnar. Píratar kjósa sér engan flokksformann, aðeins þingflokksformann.  Það er kona.

Skírasta og nýjasta dæmið um þessar miklu breytingar, sem orðið hafa á einni stuttri mannsævi (sem enn er eitthvað eftir af) er miklu víðtækari og magnaðri en vakin hefur verið athygli á. 

Það sést ekki síst í menntunarmálum.  Konur sækja fram í fræðigreinum eins og læknisfræði, verkfræði og nú líka í iðngreinum, þar sem karlar ríktu nánast einir. Konur ríkja í námsárangri þar sem karlar víkja – hverfa sumir, hætta aðrir eða ná sumir ekki læsi.  Nýafstaðnar forsetakosningar þar sem þrjár konur börðust um sigurinn en engir karlar komust þar nálægt, hljóta að vekja athygli glöggra manna á því sem er og hefur verið að gerast á svo til öllum vettvangi samfélagsins. 

Sumir sjá það þó ekki.  Sumir sjá – en þora ekki að vekja á því máls. 

Af hverju ekki?  Glöggir karlar vita af hverju ekki.  Allar konurnar vita það líka. Það er nefnilega hættulegt. 

Hið sjálfskipaða ákæruvald sér til þess. Og hvert er það ákæruvald?  Auðvitað veist þú það. Konur!!!“