Hér er fróðleg dæmisaga um skattkerfið:
Tíu félagar hittast á hverjum degi eftir vinnu og fá sér bjór. Jafnvel tvo og oft þrjá.
Í dæmaskyni skulum við gefa okkur að reikningurinn hljóði upp á 10 þúsund krónur.
Þeir skipta reikningnum á milli sín með sama hætti og þeir greiða skatta og styðjast þá við tekjutengt skattkerfi. Því hærri tekjur því meira er greitt. Því lægri tekjur því lægri er greiðslan — og jafnvel er ekkert greitt.
Niðurstaðan:
• Fyrstu fjórir félagarnir greiða ekkert.
• Fimmti félaginn greiðir 100 krónur
• Sjötti greiðir 300
• Sjöundi greiðir 700
• Áttundi greiðir 1.200
• Níundi greiðir 1.800
• Tíundi félaginn (sá ríkasti) greiðir 5.900
Þannig gengur þetta mánuðum saman og allir virðast ánægðir og sáttir við sinn hlut.
Afsláttur kemur til sögunnar
Bareigandinn hefur þegar hér er komið sögu, áttað sig á því að þessir tíu góðu vinir eru hans bestu viðskiptavinir og því nauðsynlegt að gera vel við þá.
Dag einn tilkynnir hann þeim að hann hafi ákveðið að veita þeim 20% afslátt. Í stað þess að greiða 10 þúsund krónur verði reikningurinn hér eftir átta þúsund krónur.
Þessu fagna auðvitað allir góðir menn. Virnir koma sér saman um að sama regla um uppgjör verði áfram í gildi og hlutur hvers og eins í reikningnum verði tekjutengdur.
Eftir sem áður greiða fjórir tekjulægstu vinirnir ekki neitt. En hvernig er þá best að skipta tvö þúsund króna afslættinum?
Vinirnir átta sig strax á því að ef tvö þúsund krónum er skipt í í sex hluti koma 333,33 krónur í hlut hvers og eins. En það gengur auðvitað ekki að skipta afslættinum á milli manna með þessum hætti, enda yrði niðurstaðan sú að sá fimmti og sá sjötti fengju í raun greitt fyrir að drekka bjórinn. Sá fimmti fengi 233,3 krónur og sá sjötti um 33,3 krónur.
Bareigandinn kemur með lausnina. Best sé að skipta afslættinum þannig að þeir tekjulægstu fái hlutfallslega mesta afsláttinn.
Á þetta sættast félagarnir og reikningurinn skiptist því þannig:
• Fyrstu fjórir félagarnir greiða ekkert frekar en áður.
• Fimmti félaginn greiðir ekkert (100% afsláttur)
• Sjötti greiðir 200 krónur í stað 300 króna (33% afsláttur)
• Sjöundi greiðir 500 krónur í stað 700 króna (28% afsláttur)
• Áttundi greiðir 900 krónur en ekki 1.200 krónur (25% afsláttur)
• Níundi félaginn greiðir 1.400 en ekki 1.800 (22% afsláttur)
• Tíundi félaginn, sá ríkasti, greiðir 4.900 krónur í stað 5.900 króna (16% afsláttur)
Þannig eru allir félagarnir betur settir en áður og sá fimmti fær nú að drekka sinn bjór án þess að greiða nokkuð.
Vík milli vina
Að veislu lokinni kemur að uppgjöri, en þá renna tvær grímur á menn og vík verður milli vina.
„Ég fékk aðeins 100 krónur í minn hlut af tvö þúsund króna afslætti“, hrópar sjötti félaginn. „Hann fékk hins vegar eitt þúsund krónur – tíu sinum meira en ég“, bætir hann við og bendir á þann tíunda og þann ríkasta.
„Þetta er rétt,“ hrópar sá fimmti sem nú fékk að drekka frítt. „Ég sparaði einnig aðeins hundraðkall. Þetta er ósanngjarnt.“
„Nákvæmlega,“ bætti sjöundi maðurinn. „Þeir ríku fá alltaf meira í sinn hlut.“
„Bíðið nú aðeins,“ hrópar einn þeirra fjögurra sem alltaf hafa drukkið frítt: „Við fengum ekkert í okkar hlut. Þetta er enn eitt dæmið um óréttlæti. Líkt og í skattkerfinu eru þeir tekjulægstu arðrændir.“
Þannig æsist leikurinn og endar með því að tíundi félaginn er umkringdur af hinum. Hann er atyrtur harðlega fyrir græðgi og spara menn síst stóru orðin.
Daginn eftir er mætt á barinn en auðmaðurinn lætur ekki sjá sig.
Níumenningarnir drekka og spjalla. Loks kemur að uppgjöri. Þá rennur upp fyrir þeim að þeir hafa ekki lengur efni á því greiða fyrir drykkjuna. Þeir eiga ekki einu sinni fyrir helmingi upphæðarinnar.
Þannig virkar tekjutengt skattkerfi.
Tíundi félaginn situr nú á öðrum bar og drekkur sinn bjór í næði. Hann greiðir nú aðeins fyrir það sem hann drekkur og tekur ekki þátt í að greiða fyrir drykkju annarra og sparar verulega peninga. Gamlir félagar hans hafa hins vegar ekki lengur efni á hittast á hverjum degi.
Barinn, sem þeir sóttu daglega um árabil, er kominn í niðurníðslu, enda fastagestirnir horfnir á braut eftir gamalkunnugt þvarg um keisarans skegg.
Dæmisaga þessi, sem þykir ágætt kennslubókardæmi um hvernig hægt er að horfa á skattgreiðslur frá ýmsum hliðum, hefur verið eignuð dr. David R. Kamerschen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Georgíu, en hann kveðst ekki höfundur hennar, en hafi kennt nemendum sínum hana um árabil.