Ekki stendur aðeins til að nýr forseti setjist að á Bessastöðum í sumar, heldur verða borgarstjóraskipti í Ráðhúsi Reykjavíkur nú um miðjan mánuðinn, þar sem Einar Þorsteinsson uppfyllir fyrsta kosningaloforð Framsóknarflokksins um breytingar í borginni með því að hann taki við borgarstjórastólnum.
Þetta eru vitaskuld mikil tíðindi, því Dagur hefur verið lengi við stjórnvölinn í borginni sem borgarfulltrúi, formaður borgarráðs eða borgarstjóri og stýrt þar flestu undanfarin ár.
Í viðtali við Heimildina nú um helgina gerir Dagur upp borgarstjóraembættið og aftekur forsetaframboð, en virðist opinn fyrir því að hasla sér völl í landsmálunum fyrir Samfylkinguna.
Og ekki aðeins það, heldur tiltekur hann sérstaklega að Reykjavíkurmódelið henti vel fyrir landsmálin.
Líklegt er að andstæðingar Samfylkingarinnar hendi hvort tveggja á lofti, því Dagur er bæði vinsæll borgarstjóri og óvinsæll borgarstjóri – allt eftir því við hvern er talað. Sjálfstæðismenn og Miðflokksmenn munu nýta slæma rekstrar- og skuldastöðu borgarinnar til að sækja á drauma Dags en andstæðingar Sjálfstæðisflokksins munu líta á þetta sem hvatningu um að gefa Valhöll frí frá langri setu á valdastólum í íslenskum ráðuneytum.
Reykjavíkurmódelið er sannarlega ekki eitthvað sem borgaralegu öflin ættu að vanmeta. Þar hefur Dagur B. Eggertsson sýnt slík klókindi í pólitík að skrifa mætti um það bækur. Hann hefur tapað kosningum oftar en einu sinni, en samt haldið völdum eins og ekkert hafi í skorist. Lifað af stórbrotna innkomu Jóns Gnarr og Besta flokksins í borgarpólitíkina og verið samt valdamesti maðurinn í borginni þótt annar væri borgarstjóri og nú síðast tókst honum með hælkrók að stilla Einari Þorsteinssyni, sigurvegara kosninganna, upp við vegg með því að einangra Sjálfstæðisflokkinn og fá aðra flokka til að útiloka samstarf með honum og Framsókn hafði því í reynd ekki um annað að velja en ganga til liðs við margfallinn meirihluta.
Klókindin felast líka í því að Einar og Framsókn sitja uppi með borgarsjóð í tómu tjóni meðan Dagur röltir fáein skref yfir Vonarstrætið og á Austurvöll og ætlar þar að taka sér gott sæti á fyrsta farrými Samfylkingarinnar sem fer með himinskautum í skoðanakönnunum…