Dagur svarar ekki lykilspurningunni

Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra við undirritun yfirlýsingar um lagningu Sundabrautar. Þrátt fyrir það er hún enn fórnarlamb endalausra tafaleikja stjórnmálamanna sem tala nýlensku.

Viðtal Sigmundar Ernis Rúnarssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, við Dag B. Eggertsson borgarstjóra er fróðlegt, en athyglisvert er að Dagur svarar ekki afdráttarlaust einu spurningunni sem gæti réttlætt slíkt forsíðuviðtal nú, semsé hvort hann hyggist bjóða sig áfram fyrir hönd Samfylkingarinnar í borgarmálunum.

Dagur er að senda frá sér bók þessa dagana um borgarmál og skipulag og telja margir það benda eindregið til þess að hann ætli að taka slaginn.

Sjálfur segist hann í Fréttablaðsviðtalinu hafa hugsað sem svo fyrir fjórum árum, þegar fyrsta kjörtímabil hans á stóli borgarstjóra var að klárast að ef hann fengi brautargengi annað kjörtímabil yrði það hans seinna við stjórn borgarinnar.

Hins vegar hafi margir óvæntir hlutir haft áhrif, til dæmis COVID-19 og fylgigigtin sem hann glímir við:

„Að sumu leyti finnst mér ég enn vera í miðju verki. Við náðum tímamótasamningum í samgöngumálum sem varða Borgarlínuna og hluta Miklubrautar og Sæbrautar í stokk. Þetta eru risaverkefni og mikil lífsgæðamál, en þar fyrir utan má nefna Sundabraut sem er komin í uppbyggilegan farveg. Ekkert af þessu er hins vegar komið í framkvæmd og einhver hluti af mér vill sannarlega sjá þetta til enda,“ segir Dagur.

Og ritstjórinn spyr hann beint út, hvort hann sé ekki að segja að hann sé ekkert að hætta:

„Það er enginn ómissandi í pólitík, en það er enn þá verk að vinna,“ svarar Dagur og gerist harla dulur á svip, svo ég endurtek spurninguna. „Ég mun gera þetta upp við mig fljótlega en er ekki enn kominn að niðurstöðu. Mér finnst mikilvægt að sjá hvernig þessum stóru málum reiðir af í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og hvernig málum vindur fram hjá öðrum flokkum í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn er því miður þverklofinn og ekki treystandi,“ svarar hann og vísar til fyrri orða um hálfnað verk – og ég segist túlka þess orð hans á einn veg, aðeins einn veg.