Eðlisbreyting á íslenskum húsnæðismarkaði sem við viljum sjá?

Íslenskur húsnæðismarkaður er mikið í umræðunni og ekki í fyrsta sinn. Flestir eru sammála um að byggt hefur verið minna en þörf er fyrir; það hefur aftur skapað óeðlilegar hækkanir á verði og keyrt upp verðbólguna. Seðlabankinn hefur því gripið til stjórntækja sinna, sem er hækkun stýrivaxta og strangari skilyrði fyrir greiðslumati og fyrir vikið hefur hægst verulega á markaðnum og eignir seljast hægar en áður og síður en áður.

Samt sem áður fer húsnæðisverð hækkandi, sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sagði í gær að væri önnur hagfræði en almennt væri kennd í skólum um framboð og eftirspurn. Á fundi Viðskiptaráðs um peningamál í morgun viðurkenndi hann að Seðlabankanum kæmi þetta á óvart og að bankinn hefði átt von á að lækkun húsnæðisverðs myndi draga verðbólguna niður.

Kannski er eina af rótum vandans að finna í aukinni ríkisvæðingu húsnæðismarkaðarins, nokkuð sem Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi og einn helsti hugmyndafræðingur Vinstri grænna, stærði sig af í grein á Vísi í gær, þar sem hann hélt uppi vörnum fyrir forsætisráðherra gegn vaxandi gagnrýni flokksmanna.

Þar sagði Stefán:

„Um þriðjungur nýrra íbúða hefur verið byggður með framlögum ríkisins á undanförnum árum sem er eðlisbreyting á íslenskum húsnæðismarki og til marks um stórauknar félagslegar áherslur í kerfinu. Það hefur verið mörkuð stefna í húsnæðismálum í fyrsta sinn en því miður hefur verið skortur á byggingarhæfum lóðum sem er umhugsunarefni fyrir sveitarfélögin.“

Þetta með sveitarfélögin er auðvitað hárrétt hjá varaborgarfulltrúanum. Áherslan hefur öll verið á þéttingu byggðar sem er ávísun á miklu dýrari byggingarlóðir og flóknara skipulagsferli. En hitt, að þriðjungur nýrra íbúða sé byggður með framlögum ríkisins, er eiginlega sláandi þróun. Vissulega má þar merkja „stórauknar félagslegar áherslur í kerfinu“, en er sú þróun í samræmi við vilja almennings?

Alls ekki. Endurtekið hefur komið í ljós í könnunum, að Íslendingar aðhyllast séreignarstefnuna og að fólk á leigumarkaði á sér það takmark að eignast eigið húsnæði. Leigumarkaður er góður með og heilbrigt að fólk hafi val um búsetu, en það er skuggaleg þróun að ríkið sé orðið leiðandi í uppbyggingu húsnæðis og ekki síður að það gerist án nokkurrar pólitískrar umræðu.

Að það gerist á vakt Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segir svo allt um áhrif þeirra í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Hvenær ætla þingmenn þessara flokka að fara að vinna í samræmi við hugsjónir sínar og sinna flokka?