„Ef VG vill slíta stjórnarsamstarfinu, þá ættu þau bara að gera það hreint og beint“

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

„Það er ótrúlegt að fylgjast með matvælaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG sem skeytir engu um atvinnuréttindi hátt í tvöhundruð manns sem voru á leið í hvalveiðivertíð á morgun. Hún stöðvar veiðar á langreyðum með einu pennastriki, án viðunandi lagastoðar. Þetta lyktar af pólitískri örvæntingu frekar en nokkru öðru,“ skrifar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi á fésbókinni.

Hann vandar þar Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Vinstri grænum ekki kveðjurnar. „Ef VG vill slíta stjórnarsamstarfinu, þá ættu þau bara að gera það hreint og beint. En að leyfa sér svona hráskinnaleik með lífsviðurværi fjölda manns og vanvirðingu fyrir lögum og reglu er í besta falli galið.
Alþingi þarf að taka þetta til alvarlegrar skoðunar og við þingmenn að krefja ráðherrann svara. Ætli það sé tilviljun að hún skjóti þessari ákvörðun í gegnum ríkisstjórn þegar allir eru í sumarfríi, landsleikur í kvöld og þing ekki að störfum?“