Efl­ing at­vinnu­leys­is gæti félagið heitið

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri er ritstjóri Morgunblaðsins.

„Það er óvænt­ur hæga­gang­ur í hag­kerf­inu hjá okk­ur. Þessi sam­drátt­ur í hag­vexti gerði ekki boð á und­an sér. Það sýna til­tölu­lega ný­leg­ar spár.“

Þetta skrifar Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra og seðlabankastjóri, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

Hann nefnir að ekki hjálpi til að loðnan láti ekki sjá sig enn, örlög WOW séu annar skellur og sá þriðji kyrrsetning MAX-véla Icelandair.

„Verk­falls­átök á þess­um tíma eru heima­lagað slys sem engu skil­ar nema tjóni. Hót­an­irn­ar ein­ar sem beint var að ferðaþjón­ust­unni og kynt und­ir í heilt ár voru skemmd­ar­verk.

Þar sem beita átti verk­falls­vopn­inu til þess að bæta kjör í ferðaþjón­ustu datt botn­inn sjálf­krafa úr því við erfiðleika flugs­ins.

Sú at­vinnu­grein á nú und­ir högg að sækja og verk­föll, hvort sem það eru vafa­söm skæru­verk­föll eða annað af því tagi, voru at­laga gegn fólk­inu sem látið var mest með.

Upp­lýst hef­ur verið að laun þess fólks sem talið er hafa laun í lægri kanti hér á landi hafi hækkað um tæp 40% á síðustu árum og kaup­mátt­ur litlu minna! Því þetta hef­ur gerst án þess að verðbólga hafi rokið af stað og er hún enn í lág­marki núna,“ skrifar hann.

Hvernig skyldi þetta geta gengið upp?

„Hvernig skyldi þetta geta gengið upp? Lægstu laun í efna­hags­vél ESB, Þýskalandi, eru miklu lægri en hér og kaup­mátt­ur þar hef­ur vart hreyfst í tvo ára­tugi. Og vart þarf að nefna í þessu sam­hengi veik­b­urða lönd eins og Portúgal, Spán og Pól­land, svo aðeins nokk­ur lönd ESB séu nefnd. Staðan í Póllandi hef­ur þó, sem bet­ur fer, farið batn­andi síðustu ár.

Í venju­legri umræðu um efna­hags­mál, sem er lítt tíðkuð á Íslandi, dytti eng­um í hug að hægt væri að hækka kaup­mátt um tugi pró­senta á ör­fá­um árum á meðan kaup­mátt­ur stend­ur nán­ast í stað í viðskiptalandi eins og Þýskalandi í tvo ára­tugi.

Þeir sem tala fyr­ir alþjóðavæðing­unni hljóta um leið að viður­kenna að slíkt mis­ræmi á sam­keppn­is­svæðum geng­ur ekki upp til lengd­ar.

En hvernig stend­ur þá á því að verðbólg­an stend­ur enn í stað? Meg­in­skýr­ing­in er sú að fyr­ir­tæk­in þrá­ast við að hleypa þess­um hækk­un­um út í verð á vör­um sín­um og þjón­ustu enda myndi það veita rekstri þeirra þung högg. Þau neyðast því til að fækka starfs­mönn­um hjá sér. Það gera þau nauðug, enda víða komið niður í þol­mörk og reynd­ar í mörg­um til­vik­um niður fyr­ir þau.

Og þá boðar Efl­ing til enn eins dellu­verk­falls­ins af því að það fé­lag hef­ur ekk­ert tíma­skyn eða er veru­leikafirrt. Efl­ing at­vinnu­leys­is gæti fé­lagið heitið.

En at­vinnu­leysið eykst nú hratt og myndi aukast hraðar ef hluti af er­lenda vinnu­afl­inu gæti ekki horfið til sinna heimalanda,“ bætir hann við.

Ekki ástæðulaus­ar áhyggj­ur

„Það er óró­leiki í lofti og sum­ir spyrja sig hvort kreppa á borð við þá sem dundi yfir fyr­ir 11 árum sé í aug­sýn. Ekk­ert bend­ir þó til þess að eflt hafi verið í fjár­mögn­un­ar­kreppu af því tagi hér á landi. Við erum því ekki að lifa upp­grip og svo and­stæðuna, að allt loft hverfi úr blöðrunni á ör­skots­stund.
En það breyt­ir ekki því að þreng­ing­ar virðast yf­ir­vof­andi. Við það bæt­ast óvenju­leg­ar aðstæður. Verði kór­ónufar­ald­ur­inn að þeirri óár­an sem ýms­ir ótt­ast get­ur hag­kerfið allt um kring kólnað ört.

Þegar risa­land eins og Kína er sett í alþjóðlega sótt­kví, sem eng­inn veit hvað þarf að standa lengi, get­ur allt gerst. Þar býr nærri fjórðung­ur mann­kyns.

Ef við vær­um að tala um Kína eins og það var áður en Rich­ard Nixon opnaði það upp og ásamt mót­spil­ar­an­um, Deng Xia­op­ing, opnaði um­heim­inn fyr­ir því, gerði slík ein­angr­un um­heim­in­um lítið tjón.

En það und­ar­lega hef­ur gerst að þetta komm­ún­ista­ríki er orðið ómiss­andi hvati fyr­ir alþjóðleg­an kapí­tal­isma og þess vegna er ástandið svona viðkvæmt núna.

Það má held­ur ekki gleyma því að stór hluti kín­versku þjóðar­inn­ar er orðinn góðu van­ur. Þegar svæði eru lokað af með til­skip­un­um, eins og nú hef­ur gerst, þannig að mat­væli og nauðþurft­ir ber­ast hvorki til né frá og íbú­ar í millj­óna­vís eru sett­ir í eins kon­ar stofufang­elsi get­ur hitnað mjög í kol­un­um.

Á Vest­ur­lönd­um hafa menn dregið veik­indakúrf­una áfram og segja að 10 sinn­um fleiri a.m.k. hafi veikst og dáið en upp er gefið og þar sem bíða þurfi 14 daga eft­ir að full­ljóst sé af ein­kenn­um hvort menn séu sjúk­ir eða ekki megi marg­falda veik­inda­töl­urn­ar.

Það er óþarfi að gefa sér að kín­versk yf­ir­völd séu að falsa svo al­var­leg­ar töl­ur að gamni sínu. Heim­ur­inn á eng­an ann­an kost en að standa með Kína við að vinna bug á far­aldr­in­um. Það er í allra þágu.“