„Það er óvæntur hægagangur í hagkerfinu hjá okkur. Þessi samdráttur í hagvexti gerði ekki boð á undan sér. Það sýna tiltölulega nýlegar spár.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra og seðlabankastjóri, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.
Hann nefnir að ekki hjálpi til að loðnan láti ekki sjá sig enn, örlög WOW séu annar skellur og sá þriðji kyrrsetning MAX-véla Icelandair.
„Verkfallsátök á þessum tíma eru heimalagað slys sem engu skilar nema tjóni. Hótanirnar einar sem beint var að ferðaþjónustunni og kynt undir í heilt ár voru skemmdarverk.
Þar sem beita átti verkfallsvopninu til þess að bæta kjör í ferðaþjónustu datt botninn sjálfkrafa úr því við erfiðleika flugsins.
Sú atvinnugrein á nú undir högg að sækja og verkföll, hvort sem það eru vafasöm skæruverkföll eða annað af því tagi, voru atlaga gegn fólkinu sem látið var mest með.
Upplýst hefur verið að laun þess fólks sem talið er hafa laun í lægri kanti hér á landi hafi hækkað um tæp 40% á síðustu árum og kaupmáttur litlu minna! Því þetta hefur gerst án þess að verðbólga hafi rokið af stað og er hún enn í lágmarki núna,“ skrifar hann.
Hvernig skyldi þetta geta gengið upp?
„Hvernig skyldi þetta geta gengið upp? Lægstu laun í efnahagsvél ESB, Þýskalandi, eru miklu lægri en hér og kaupmáttur þar hefur vart hreyfst í tvo áratugi. Og vart þarf að nefna í þessu samhengi veikburða lönd eins og Portúgal, Spán og Pólland, svo aðeins nokkur lönd ESB séu nefnd. Staðan í Póllandi hefur þó, sem betur fer, farið batnandi síðustu ár.
Í venjulegri umræðu um efnahagsmál, sem er lítt tíðkuð á Íslandi, dytti engum í hug að hægt væri að hækka kaupmátt um tugi prósenta á örfáum árum á meðan kaupmáttur stendur nánast í stað í viðskiptalandi eins og Þýskalandi í tvo áratugi.
Þeir sem tala fyrir alþjóðavæðingunni hljóta um leið að viðurkenna að slíkt misræmi á samkeppnissvæðum gengur ekki upp til lengdar.
En hvernig stendur þá á því að verðbólgan stendur enn í stað? Meginskýringin er sú að fyrirtækin þráast við að hleypa þessum hækkunum út í verð á vörum sínum og þjónustu enda myndi það veita rekstri þeirra þung högg. Þau neyðast því til að fækka starfsmönnum hjá sér. Það gera þau nauðug, enda víða komið niður í þolmörk og reyndar í mörgum tilvikum niður fyrir þau.
Og þá boðar Efling til enn eins delluverkfallsins af því að það félag hefur ekkert tímaskyn eða er veruleikafirrt. Efling atvinnuleysis gæti félagið heitið.
En atvinnuleysið eykst nú hratt og myndi aukast hraðar ef hluti af erlenda vinnuaflinu gæti ekki horfið til sinna heimalanda,“ bætir hann við.
Ekki ástæðulausar áhyggjur
„Það er óróleiki í lofti og sumir spyrja sig hvort kreppa á borð við þá sem dundi yfir fyrir 11 árum sé í augsýn. Ekkert bendir þó til þess að eflt hafi verið í fjármögnunarkreppu af því tagi hér á landi. Við erum því ekki að lifa uppgrip og svo andstæðuna, að allt loft hverfi úr blöðrunni á örskotsstund.
En það breytir ekki því að þrengingar virðast yfirvofandi. Við það bætast óvenjulegar aðstæður. Verði kórónufaraldurinn að þeirri óáran sem ýmsir óttast getur hagkerfið allt um kring kólnað ört.
Þegar risaland eins og Kína er sett í alþjóðlega sóttkví, sem enginn veit hvað þarf að standa lengi, getur allt gerst. Þar býr nærri fjórðungur mannkyns.
Ef við værum að tala um Kína eins og það var áður en Richard Nixon opnaði það upp og ásamt mótspilaranum, Deng Xiaoping, opnaði umheiminn fyrir því, gerði slík einangrun umheiminum lítið tjón.
En það undarlega hefur gerst að þetta kommúnistaríki er orðið ómissandi hvati fyrir alþjóðlegan kapítalisma og þess vegna er ástandið svona viðkvæmt núna.
Það má heldur ekki gleyma því að stór hluti kínversku þjóðarinnar er orðinn góðu vanur. Þegar svæði eru lokað af með tilskipunum, eins og nú hefur gerst, þannig að matvæli og nauðþurftir berast hvorki til né frá og íbúar í milljónavís eru settir í eins konar stofufangelsi getur hitnað mjög í kolunum.
Á Vesturlöndum hafa menn dregið veikindakúrfuna áfram og segja að 10 sinnum fleiri a.m.k. hafi veikst og dáið en upp er gefið og þar sem bíða þurfi 14 daga eftir að fullljóst sé af einkennum hvort menn séu sjúkir eða ekki megi margfalda veikindatölurnar.
Það er óþarfi að gefa sér að kínversk yfirvöld séu að falsa svo alvarlegar tölur að gamni sínu. Heimurinn á engan annan kost en að standa með Kína við að vinna bug á faraldrinum. Það er í allra þágu.“