Efling virðist vera að tapa störukeppninni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Verkfall Eflingarfólks hjá Reykjavíkurborg teygist á langinn og fátt bendir til þess að samkomulag sé í augsýn. Viðtöl í sjónvarpi í gær við Eflingarkonur sýndi að þar á bæ er fólk orðið þreytt á verkfallinu og vill fara að komast aftur í vinnuna.

Það er hægt að hrífast af mörgu sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í þjóðmálaumræðunni um lífsgæði, jafnrétti og réttinn til að lifa mannsæmandi lífi — það er nefnilega hneyksli hve erfitt er fyrir marga hér að búa í sæmilegu húsnæði og eiga fyrir mat. En margt sem hún segir eru samt gamlir sósíalistafrasar og klisjur sem lítið erindi eiga við nútímann. Það er ekki stéttastríð í landinu eða barátta um yfirráð yfir atvinnutækjunum.

Samt er eins og Efling sé þessa dagana að tapa í störukeppninni við Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Reykjavíkurborg; stöðugleikinn samfara lífskjarasamningunum er of mikilvægur til að honum sé kastað á glæ og höfrungahlaup hefjist milli ólíkra stétta.

Svo er líka afleitt ástand til að vera í verkfalli. Það er mikill samdráttur í efnahagslífinu, fjöldi fólks að missa vinnuna og fyrirtæki í erfiðleikum. Kórónaveiran ógnar að utan og vont veður dag eftir dag. Verkföll, sem ættu að vera fyrsta frétt, komast bara fyrir aftarlega í fréttatímanum.

Sólveig Anna þarf að gæta þess að lenda ekki í sömu stöðu og blaðamenn sem höfðu hátt fyrir áramót og fóru í skæruverkföll. Forsvarsmenn fjölmiðlanna bentu réttilega á að þar á bæ væru engin skilyrði til að hækka launin og hótanir um frekari aðgerðir hreinlega fjöruðu út. Það hefur enginn minnst á þær síðan.

Það er heldur ekki mikil skynsemi í boðuðum aðgerðum BSRB hjá ríki og sveitarfélögum í næsta mánuði. Það er grjóthörð afstaða hins opinbera að raska ekki lífskjarasamningunum og langvinnt verkfall mun ekki breyta því.

Slík átök gætu hins stórskaðað Vinstri græna forystu ríkisstjórnarinnar og forystu Samfylkingarinnar í borgarstjórn, en Sjálfstæðismenn, Framsókn og Miðflokkurinn munu hafa litlar áhyggjur af því.

Það skyldi þó ekki vera að aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar verði banabiti ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og vinstri meirihlutans í borginni þegar lengra er litið fram á veg?

Ekki er víst að Gunnar Smári Egilsson myndi gráta það…