Ég held að ég sé ekki einn um að hafa áhyggjur af stöðu mála þessa dagana

Gunnlaugur Guðmundsson hefur um langt árabil verið einn fremsti stjörnuspekingur þjóðarinnar.

Hugleiðing dagsins er í boði hins landskunna stjörnuspekings, Gunnlaugs Guðmundssonar, sem með einlægum hætti lýsir líðar sinni þessa dagana yfir öllum hörmunarfréttunum sem yfir okkur dynja:

„Tíðin hefur verið erfið undanfarið. Jarðskjálftar á Reykjanesi, eldgos, harmleikur í Mið-Austurlöndum, stríð í Úkraníu. Öfgar og slaufunarmenning. Óþol gagnvart mennsku og skoðunum fólks sem hugsar ekki eins og við viljum að aðrir hugsi.

Þungt yfir, satt að segja. Ég hef átt erfitt með svefn, vaknað um miðja nótt, sveittur, niðamyrkur úti, þreyttur, en get samt ekki sofið. Kvíðahnútur í maga.

Og þar sem ég er í Nautinu, þá hefur hálsinn verið viðkvæmur og ég hóstandi, án þess beint að vera með kvef. Stress, ekki spurning. Og þunglyndi satt að segja.

Ég held að ég sé ekki einn um að hafa áhyggjur af stöðu mála þessa dagana.

Mig langar að deila því hvernig ég tekst á við þetta. Og það er kjarni málsins. Það þýðir ekki að gefast upp.

Ég hef í gegnum tíðina, á þeim stundum þegar sálin lokast og einangrast, þegar syrtir yfir, sagt við sjálfan mig: ‘Opnaðu hugann. Opnaðu fyrir flæði. Ekki loka þig af.’ Farið með slíka möntru og reynt að anda mig út úr sálarmyrkrinu.

Í dag nota ég þessa setningu: ‘Þú sigrar heiminn þegar þú sigrar sjálfan þig.’

Ég get ekki komið í veg fyrir jarðskjálfta eða eldgos. Ég get ekki stöðvað stríð út í heimi. Ég get ekki breytt öðru fólki. Ég get ekki stjórnað því sem gerist í umheiminum. Ég get stjórnað viðhorfum mínum. Hugsunum mínum. Ég get unnið með sjálfan mig.

Hvernig? Mataræði, hreyfing, svefn og hvíld eru lykilatriði. Ég reyni því að laga þessa hluti. Þegar það tekst þá batnar geðheilsan.

Allt í lífinu er orka. Ég er orkukerfi. Þegar ég vanda mig þá verður tíðni orku minnar fín og fáguð. Þegar ég dett í slen, þá verður orka mín gróf og neikvæðar hugsanir eiga greiðan aðgang að sálinni.

Ég reyni því að vinna með orku mína. Lykilatriði í því ferli er að fást við verkefni sem vekja gleði og dvelja í umhverfi sem fellur vel að minni persónugerð.

Þegar vandi steðjar að þá þýðir ekki að kenna heiminum um. Heimurinn breytir sér ekki fyrir mig. Ég þarf að vinna í eigin málum. Horfa á það jákvæða, sem þrátt fyrir allt, er víða í heiminum. Fólkið mitt, vinir, kærleikur, skemmtileg áhugamál.

Eins og Elsa Jónsdóttir frænka, sem nú býr í Noregi, segir: Think positive thoughts. Feel the joy. Og Guðni Gunnarsson: Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.“