Jón Hjaltason, frumkvöðull kenndur við Háspennu, sendir forystu Sjálfstæðisflokksins pillur í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Jón segist sem gamall sjálfstæðismaður að flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefir þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur og á þar við Davíð Oddsson ritstjóra blaðsins og fv. formann Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóra og forsætisráðherra.

„Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum. Ég hef rætt við hundruð félagsmanna sem hugnast ekki ferðalag ykkar og hyggjast ekki slást í þá för,“ segir Jón í grein sinni og nefnir fjölda atriða sem hann telur vera núverandi forystu til vansa, „svo vægt sé til orða tekið,“ eins og hann orðar það.
Þau atriði sem Jón telur upp í grein sinni, sem hann telur að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi orðið viðskila við stefnu flokksins, eru:
- Þið hafið nánast ekkert gert til að tálga niður þá ofurskatta sem Steingrímur lagði á þjóðina því „það varð hér hrun“.
- Þið hafið ekkert gert til að afnema hinn þrepaskipta tekjuskatt þeirra Steingríms og Jóhönnu þótt við hefðum áður verið með skattkerfi sem aðrar þjóðir öfunduðu okkur af.
- Þið dragið óendanlega lappirnar með að lækka tryggingagjaldið.
- Þið réðuð Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra, ekki einu sinni heldur tvisvar.
- Þið svikust undan merkjum með því að samþykkja Icesave.
- Þið hafið þrátt fyrir langa stjórnarsetu heykst á að afturkalla ESB-umsóknina.
- Þið hyggist gegn vilja flokksins og meirihluta þjóðarinnar troða inn á okkur orkupökkum framtíðarinnar.
- Þið takið fullan þátt í stimpilpúðaafgreiðslu alþingis á öllu sem frá ESB kemur. Ekki er annað að sjá en ætlun ykkar sé að troða okkur þar inn bakdyramegin, þvert á vilja flokks og þjóðar.
- Þið gerið ekkert til að slá á þá gerræðislegu hugmynd að færa Reykjavíkurflugvöll.
- Þið gerið heldur ekkert til að hamla brautargengi hinnar fáránlegu Borgarlínu.
- Þið gerið ekkert til að koma böndum á borgina sem á örfáum árum hækkar fasteignagjöld um tæp 50% auk þess að vera með útsvarið uppi í rjáfri.
- Þið styðjið nánast takmarkalausar fóstureyðingar og kallið það „að móta framtíðina“.
- Þið gerið ekkert til að koma böndum á fjársóun og fáránleika í heilbrigðisráðuneytinu.
- Þið gerðuð ekkert til að koma a.m.k. einhverju skikki á opingáttarflæði hælisleitenda.
- Þið köstuðuð fyrir róða eina ráðherranum sem sýnt hefur staðfestu, þor og dug.
- Þið hafið tekið ríkan þátt í að þenja út ríkisbáknið og hítina þá, þrátt fyrir allt önnur fyrirheit. Enginn flokkur annar hefur verið lengur og oftar við völd undanfarna áratugi. Það hefir því ekki verið skortur á tækifærum til að efna eitthvað af loforðunum um að minnka fitulagið á bákninu.
- Þið takið fullan þátt í að reka kaupfélag í Leifsstöð þrátt fyrir gömlu góðu heitin um einkarekstur og einstaklingsframtak.
- Þið berið mesta ábyrgð allra flokka á RÚV en hafið hvorki kjark né döngun til að kveða niður þá ósvinnu sem þar ríður húsum.
- Þið eruð um þessar mundir með áætlun um að afnema millifæranleg skattþrep milli hjóna þótt fjölskyldan og velferð hennar hafi frá upphafi verið eitt grunnstefja flokksins.
Og lokaorð Jóns eru þessi:
„Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum fremur en að flokkurinn fari frá ykkur.“