„Ég vil ekki valda mömmu minni vonbrigðum með orðbragðinu“

Hugleiðing dagsins er í boði Diljár Mistar Einarsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, sem sagðist í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag hafa vaxandi áhyggjur, eins og margir fleiri, af skautun í samfélaginu.

„Það eru umbrotatímar á Íslandi og auðvitað í heiminum öllum. Staða fólksins okkar í Grindavík er okkur auðvitað efst í huga. Það voru mikilvæg skilaboð frá Alþingi að setja Grindavík fyrst á dagskrá núna í janúar. Margir eiga um sárt að binda og það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þrautseigjunni, æðruleysinu og bjartsýninni sem stafar frá Grindvíkingum. Við sem reynum að leggja eitthvað til málanna og aðstoða getum stundum orðað hlutina með röngum hætti eða skort skilning á aðstæðum. Því þiggjum við leiðbeiningar og leiðsögn frá Grindvíkingum sem undantekningarlaust eru settar fram á málefnalegan hátt.

Það sama má ekki segja um alla umræðu og orðræðu í íslensku samfélagi. Vaxandi áhyggjur eru af skautun í samfélaginu, ég var t.d. að koma úr upptöku á hlaðvarpi sem fjallaði að miklu leyti um það. En þessi slæma þróun umræðunnar ætti ekki að koma okkur á óvart. Við höfum enda fjölmörg dæmi þessa í beinni útsendingu, meira að segja frá nágranna- og vinaþjóðum.

Íslendingar vilja bara svo oft endurtaka mistökin, brenna sig sjálfir. En þótt við tökum mörg undir áhyggjur af aðkallandi vandamálum sýnist mér framlag til umræðunnar vera misjafnt og oft misráðið. Fólk sem er sannfært um eigið ágæti og fádæma gott innræti öskrar hatursfull ókvæðisorð á samborgara sína og eys yfir það svívirðingum til að láta í ljós vanþóknun sína, allt í nafni friðar og betri heims. Ég hef orðræðuna ekki eftir hér því að ég vil ekki valda mömmu minni vonbrigðum með orðbragðinu. En það var sérstakt að þurfa að útskýra hegðunina fyrir tíu ára gömlum syni mínum á fótboltamóti barna um helgina þegar hann varð var við hana. Þeir sem tala fyrir kærleika, mannúð og mannvirðingu mættu gjarnan byrja á nærumhverfi sínu. Allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður og allt það.“