Ein mesta hrútskýring Íslandssögunnar

Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir framkvæmdastjóri.

Helgi Magnússon, fjárfestir og fjölmiðlakóngur með Fréttablaði sínu, Hringbraut, DV, Pressunni og Eyjunni, var um árabil formaður Samtaka iðnaðarins og áhrifamaður í íslensku lífeyrissjóðakerfi. Samhliða var hann umsvifamikill fjárfestir, m.a. í stórfyrirtækjunum Marel og Bláa lóninu og stjórnarmaður um árabil.

Helgi er þekktur fyrir að láta gamminn geisa í hressilegum tölvubréfum um þjóðfélagsmál sem send eru til útvalinna, en hann hefur líka hin síðari ár verið kenndur við nafnlaus skrif dálkahöfundanna Náttfara og Dagfara á Hringbrautarvefnum. Virðast hagsmunir þeirra Dagfara/Náttfara og Helga undantekningalaust fara saman.

Þótt Helgi sé ekki lengur stjórnarmaður í Marel og hættur formennsku í Samtökum iðnaðarins, er ekki þar með sagt að hann hafi sleppt tökum sínum á hvoru tveggja. Þetta sést berlega í skrifum Dagfara í dag, þar sem því er slegið upp í fyrirsögn að barnabarn sægreifa vilji nú verða formaður í Samtökum iðnaðarins.

Svo kemur einhver mesta hrútskýring Íslandssögunnar:

„Sú furðulega staða er komin upp að barnabarn sægreifa sækist eftir að verða formaður Samtaka iðnaðarins í stjórnarkosningum sem eru framundan. Guðlaug Kristinsdóttir, sem er barnabarn Aðalsteins heitins Jónssonar, Alla ríka á Eskifirði, býður sig fram til formanns. Hún er stjórnarformaður Vírnets í Borgarnesi en hefur aldrei starfað í iðnaði eða verið daglegur stjórnandi í iðnfyrirtæki en einungis stjórnarmaður á vegum foreldra sinna sem hafa fjárfest víða.

Alli ríki var einn þekktasti og umtalaðisti útgerðarmaður síðustu aldar á Íslandi. Hann rak Hraðfrystihús Eskifjarðar sem var umsvifamikið í mörgum greinum sjávarútvegs. Eftir fráfall hans og eiginkonunnar keypti dóttir þeirra aðra erfingja út úr Hraðfrystihúsi Eskifjarðar og rekur það nú ásamt eiginmanni sínum, Þorsteini Kjartanssyni aflaskipstjóra. Aðrir erfingjar, eins og Kristinn Aðalsteinsson faðir Guðlaugar, hurfu úr fyrirtækinu og fjárfestu á öðrum sviðum.

Kosið verður um formann Samtaka iðnaðarins milli Guðlaugar og Árna Sigurjónssonar varaformanns Samtaka iðnaðarins. Hann er yfirlögfræðingur og einn af æðstu stjórnendum Marels hf. sem er langstærsta og verðmætasta iðnfyrirtæki Íslands með yfir 6.000 starfsmenn á Íslandi og víða um heim. Árni hefur átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins í fjögur ár og jafnframt í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins.

Helgi Magnússon fjárfestir.

Framboð Guðlaugar þykir vægast sagt einkennilegt og beinlínis óviðeigandi. Að barnabarn eins helsta útgerðarmanns Íslandssögunnar sækist eftir formennsku í Samtökum iðnaðarins gengur ekki vel upp. Hér er á ferðinni einkennilegt plott sem væntanlega má rekja til helstu undirróðursmanna sægreifa og handlangara þeirra. Iðnaður og sjávarútvegur hafa í gegnum tíðina oft tekist á í hagsmunabaráttu atvinnulífsins þó einnig hafi verið ágætt samstarf milli greinanna á sumum sviðum, einkum í málefnum tengdum íslenskum vinnumarkaði.

Fram til þessa hefur fólki úr íslenskum iðnaði verið treyst fyrir formennsku í Samtökum iðnaðarins og engum öðrum. Væntanlega verður engin breyting á þeirri stefnu í komandi kosningum samtakanna.“

Það var og.

Hvergi í þessum skrifum virðist einu sinni örla fyrir þeim möguleika að Guðlaug Kristinsdóttir geti sem nútímaleg og vel menntuð kona, með mikla reynslu úr atvinnulífinu, staðið á eigin fótum og standi sjálf fyrir sínu framboði á eigin verðleikum.

Hún er barnabarn sægreifa. Þess vegna gengur framboð hennar ekki upp! Hverjir skyldu vera afar mótframbjóðandans?

Helgi Magnússon varð stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins eftir að hann tók við stjórn Málningarverksmiðjunnar Hörpu af föður sínum.

Guðlaug er framkvæmdastjóri fjárfestingafélags. Hún hefur lengi verið stjórnarformaður stórra fyrirtækja á borð við Límtré/Vírnet og Securitas, hún er hámenntuð á sviði fjármála og viðskipta frá erlendum háskólum og reynslumikil í störfum sínum fyrir íslensk fjármálafyrirtæki.

Það heitir hjá Helga Magnússyni að hún hafi eitthvað sýslað með peninga foreldra sinna. Sem er fremur fyndið að lesa í texta eftir erfingja Hörpuauðsins.

Og framboð hennar er óviðeigandi, hvorki meira né minna!

Árni Sigurjónsson yfirlögfræðingur Marels.

Á þessu stigi er ómögulegt að segja hvor frambjóðandinn er sigurstranglegri, Guðlaug eða Árni, en víst er að hinn almenni félagsmaður í Samtökum iðnaðarins hlýtur að hafna með öllum gamaldags karlrembulegum hrútskýringum Helga Magnússonar og taka afstöðu til frambjóðendanna á þeirra eigin forsendum.

Árni Sigurjónsson er eflaust hinn ágætasti maður. En honum var sannarlega enginn greiði gerður með þessum skrifum stórs hluthafa í Marel, sem í frekjukasti sínu vill ráða því hver stýrir skútunni í sínu gamla félagi.

Guðlaug Kristbjörg stórgræddi hins vegar á þessu öllu saman.

Eftir þessi skrif er skiljanlegra en áður, að nær eintómir karlmenn hafi raðast í yfirmannsstöður hjá fjölmiðlaveldi Helga Magnússonar. Líklega hafa afar þeirra kvenna sem til álita komu, ekki verið honum þóknanlegir.