Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði af miklu sjálfstrausti á flokksráðsfundi um helgina. Ekki fer á milli mála að formaðurinn ætlar sér stóra hluti í kosningabaráttunni sem framundan er og lét höggin dynja á þeim stjórnmálaöflum sem gagnrýna flokkinn hvað mest í umræðunni.
„Það er mikilvægt að tala um það sem vel gengur, enda er enginn skortur á fólki sem vill skilgreina verk okkar og stefnu. Undanfarin ár hefur orðið til fjöldi smáflokka um afmörkuð stefnumál. Þau eru ólík og ná allt frá aðild að Evrópusambandinu yfir í að innleiða hér samfélag sósíalisma, í anda ríkja þar sem fólk keppist nú ýmist við að rísa upp gegn harðstjórninni eða neyðist jafnvel til að flýja,“ sagði Bjarni og þarf ekki margar háskólagráður til að finna út til hvaða flokka hann vísaði þar.
„Þrátt fyrir ólíkar áherslur eiga frambjóðendur hinna sundurleitu flokka þó margir sameiginlegt að keppast við að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn. Eðli málsins samkvæmt bíta utanaðkomandi skilgreiningar okkur lítið. Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsta stjórnmálaafl landsins og eina breiðfylkingin sem eftir stendur. Við erum flokkur þar sem ólík sjónarmið og fjölbreyttar raddir komast að innan hóps sem trúir þó allur á sömu grundvallargildin. Jöfn tækifæri umfram jafna útkomu. Að vera áfram land tækifæranna þar sem frelsi, framfarir og trú á kraftinn í fólkinu ræður för. Þar slær okkar hjarta,“ sagði hann.