Eini munurinn á Íslandi og Panama er hitastigið

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.

Hvorki forsætisráðherra, bankaráð Seðlabankans né saksóknarar hafa brugðist við ítrekuðum áskorunum varðandi lögbrot og meint lögbrot í Seðlabankanum, segir Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor á fésbók.

Seðlabankinn hefur mjög verið í umræðunni eftir að Samherji vann fullnaðarsigur í dómskerfinu á bankanum og ásökunum hans um misferli í gjaldeyrismálum.

Þorvaldur segir að til dæmis hafi neyðarlánið til Kaupþings ekki verið rannsakað og meintar sakir látnar fyrnast fyrir fáeinum vikum án þess að nokkurt yfirvald hrærði legg eða lið.

„Þegar Ítalía skalf og nötraði vegna spillingar árin eftir 1990 hugguðu menn sig við að seðlabanki landsins og hæstiréttur hefðu a.m.k. hreinan skjöld. Nokkru síðar var seðlabankastjórinn settur inn,“ segir Þorvaldur.

„Hér heima virðist talsvert vanta upp á að Seðlabankinn og Hæstiréttur hafi hreinan skjöld enda eru báðar stofnanir afsprengi og eftirmyndir gerspilltrar stjórnmálastéttar. Sem minnir mig á gamansama embættismanninn sem sagði: Eini umtalsverði munurinn á Íslandi og Panama er hitastigið,“ bætir hann við.