„Einkabílinn hjakkar í sama subbulega bílfarinu“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, og fv. forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata skrifar grein í Fréttablaðið í dag sem hlýtur að teljast ansi afhjúpandi fyrir nálgun meirihlutans í Reykjavík gagnvart einkabílnum og skipulagi miðborginnar.

Hún segir þar „fortíðarskvaldrið óma þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar.“

Borgarfulltrúinn hafnar með öllu ákalli verslunar- og veitingafólks við Laugaveginn um að opna götuna fyrir bílaumferð í ljósi algjörs forsendu- og tekjubrests vegna kórónuveirunnar með þeim afleiðingum að erlendir ferðamenn sjást varla lengur á Laugaveginum.

„Sjaldan hefur með jafn skýrum hætti kristallast hugmyndafræðilegur ágreiningur meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn um hvort stefna beri til framtíðar með minni losun gróðurhúsalofttegunda, aukinni samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg eða hvort grípa beri með sveittum krumlum fortíðar um visnandi svart/hvíta ímynd samfélags þar sem hugmyndin um einkabílinn sem helsta kennimerki sjálfstæðisins fær að hjakka áfram í sama subbulega bílfarinu.

Mikið hvað ég er ánægð með það að borgarbúar skyldu velja umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra.

Við þá herramenn sem stoppa mig á förnum vegi, hvort sem það er í raunheimum eða á internetinu, og biðja mig um að „laga Laugaveginn“ og eru þar með að veita sína stuðningsyfirlýsingu við hina fyrrnefndu visnandi og fúnandi ímynd svo að bíllinn þeirra njóti áfram þeirra fullkomnu forréttinda sem hann og þeir hafa alltaf notið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins vil ég segja þetta: Ég er að laga Laugaveginn. Með því að gera hann að göngugötu,“ skrifar annar tveggja Pírata í borgarstjórn.

Henni til upprifjunar, má ef til vill geta þess að meirihlutinn með sínar skipulagsáherslur féll í síðustu borgarstjórnarkosningum. Honum var hafnað. Með því að fá Viðreisn til liðs við sig, tókst að mynda nýjan meirihluta þrátt fyrir vilja borgarbúa um breytingar og allt tal borgarfulltrúans um að borgarbúar „hafi valið umhverfið“ er því fremur byggt á óskhyggju en staðreyndum. Sem getur reyndar verið gagnlegt í pólitík. Að minnsta kosti til skemmri tíma.