Einkenndust viðbrögð heimsins við covid-19 af vitsmunaskekkju?

Prófessor Johan Giesecke.

Dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson verkfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík, er einn þeirra sem veltir fyrir sér ótrúlegum efnahagshörmungum sem blasa hvarvetna við vegna kórónuveirufaraldursins.

Hann horfir meðal annars til reynslu Svía, en þeir virðast horfa á veiruna eins og slæmt tilfelli af flensufaraldri og gerðu ráðstafanir í samræmi við það, ólíkt fjölda landa sem settu á útgöngubann sem lamað hefur allt um margra vikna skeið.

Viljinn hefur áður vísað til dr. Johans Giesecke, prófessors og fv. sóttvarnalæknis Svía sem er nú ráðgjafi aðalframkvæmdastjóra WHO – Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Í viðtali við áströlsku Sky-fréttastöðina nýlega velti dr. Giesecke því fyrir sér hvernig Ástralir ætli sér að opna landið á nýjan leik án þess að fá yfir sig holskeflu smita.

Þórður Víkingur skrifar:

„Punkturinn er þessi: Á er skollin alvarleg heimskreppa því að atvinnulífið í heiminum hefur nánast verið stöðvað. Framleiðsla, aðfangakeðjur og mannlíf liggur niðri um langa hríð með hrikalegum afleiðingum fyrir fólk, fyrirtæki og samfélög. Þeir sem „stöðva veiruna“ og loka sig mest af eru taldir standa sig best. Samt blasir við að ekki er hægt að loka t.d. skólum og fyrirtækjum í marga mánuði, hvað þá ár.

Hvað gerist þegar opnað er aftur fyrir eðlilegt líf?

Þórður Víkingur.

Johan Giesecke fullyrðir að hlutfall þeirra sem munu láta lífið úr covid-19 sé að mestu óháð þessum lokunum. Að lokum munu svipað margir hafa látið lífið hlutfallslega í Svíþjóð og öðrum löndum sem freistuðu þess að „stöðva veiruna“ enda langt í bóluefnið. Eins og ég skil þetta hafa ákvarðanir stjórnvalda mjög víða einkennst af stjórnleysi og skorti á rökhyggju.

Þetta fyrirbæri kallast vitsmunaskekkjur (cognitive biases) og leiðir til þess að heilinn kallar fram viðbrögð og ákvarðanir sem eru oft í litlu samræmi við raunveruleikann.

Sem einfalt dæmi um vitsmunaskekkju mætti nefna að síðustu 10 ár hafa um 9 Bandaríkjamenn fallið fyrir hendi Jihad hryðjuverkamanna árlega að meðaltali. Yfir sama meðaltalstímabil deyja 70 Bandaríkjamenn árlega af völdum sláttuvéla, 737 við að detta úr rúmi sínu og næstum 12.000 falla fyrir hendi annarra Bandaríkjamanna árvisst.“