Einn helsti frumkvöðull okkar aldrei beðinn um ráðgjöf hér á landi

Magnús Scheving, sem stofnaði milljarðafyrirtækið og hið heimsþekkta vörumerki Latabæ upp úr engu, hefur að eigin sögn, aldrei verið beðinn um að taka þátt í viðburðum sem varða nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlastarf hérlendis, þrátt fyrir að hafa haldið ótal slíka fyrirlestra erlendis.

Frá því segir Viðskiptablaðið, sem birtir viðtal við Magnús í 25 ára afmælistímariti sem kom út á dögunum

Þetta eru í raun nokkur tíðindi, sem gefa tilefni til frekari vangaveltna um hvort að litla íslenska samfélagið sé of einsleitt, tengt og hjarðhugsandi til að sækja í reynslubanka okkar bestu manna, og virkja okkar frambærilegasta fólk, unga fólkinu og atvinnulífinu til góða.

Sú spurning vaknar einnig, hvort að fleiri stórhugar með dýrmæta reynslu gætu hafi svipaða sögu að segja.

Að minnsta kosti hefur ekki verið skortur á námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum, fundum, styrkjum og sjóðum sem tengjast frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun á Íslandi.

Hvað þá fjölda frumkvöðla og fólks sem vinnur við að skipuleggja allt það umstang og kalla hina útvöldu til borðsins.