Hverri nýrri og góðri hreyfingu geta fylgt óæskileg hliðarspor, segir dr. Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus í sagnfræði. Hann kveðst heyra konur æ oftar láta í ljós hræðslu við að vera einar í návist karls sem þær þekkja ekki mikið.
„Það er eins og þær óttist, sumar, að hver óþekktur karl sé væntanlegur nauðgari,“ segir hann.
„Stundum stendur maður fyrir hörðum valkostum: Þetta er mikið tilfinningamál sem óhjákvæmilega veldur deilum, en þetta er samt vel úthugsuð meining mín. Þægilegast er að segja ekki frá erfiðum málum. En ég á erfitt með að þegja og læt því hér meiningu mína koma skýrt fram.
Me-too hreyfingin hefur gert margt gott. Hún hefur hvatt margar konur til að segja frá kynferðislegri misnotkun sem þær hefðu án hennar þagað um. Það eitt er mikið afrek,“ segir Gísli í færslu á fésbókinni.
Gísli, sem hefur margoft sagt að undanförnu, að of mikið hafi verið gert úr ásökunum í garð Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, segir að þetta geri mannleg samskipti erfiðari og geti skapað fólki, bæði körlum og konum, slæma líðan að ástæðulausu, eitrað samskiptin.