Einstök staða í íslenskri stjórnmálasögu

Skjáskot/ruv.is

Nú bíða allir eftir ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um forsetaframboð.

Þótt ákvörðun hafi ekki verið formlega kynnt, hrannast vísbendingarnar nú upp og ekki aðeins um áform Katrínar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hversu ráðandi Katrín er innan ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að fara fyrir óvinsælli stjórn og flokki sem mælist á mörkum þess að detta út af þingi. Hún er yfirburðamanneskja á sviðinu og veit af því.

Þannig ákvað Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að boða þingflokk sinn til fundar sem vart er hægt að kalla annað en neyðarfund. Umræðuefni fundarins er að velta því fyrir sér hvað Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherrann í þeirra eigin ríkisstjórn, kunni að vera að hugsa. Einnig munu menn ræða hugsanleg viðbrögð við hugsanlegum ákvörðunum Katrínar.

Þingflokksformaðurinn sagðist ekki vita frekar en aðrir hvað væri í vændum.

Þetta lýsir einstakri stöðu í íslenskri stjórnmálasögu. Samstarfsflokkar forsætisráðherrans hafa að eigin sögn ekki hugmynd um hvað forsætisráðherrann ætli sér að gera eða hverjar afleiðingarnar verða.

Fundað hægri vinstri

Viljinn hefur heyrt í innstu koppum í búrum stjórnarliðsins um þá atburðarás sem á sér stað á meðan á þessu gengur. Það er enda fundað hægri vinstri undir húsveggjum og í reykfylltum bakherbergjum.

Framsóknarmennirnir hafa lengi strokið félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum öfugt með eindregnum stuðningi við Katrínu og VG. Það telja sjálfstæðismenn vera lið í stöðutöku sem eigi að nýta þegar Katrín tilkynnir um framboð. Þannig ætli þeir sér að fá sem mest út úr glundroðanum sem skapast og landa um leið eitt stykki forsætisráðherraembætti.

Þó væri vandræðalegt fyrir sjálfstæðismenn að færa forystu í ríkisstjórn frá einum litlum samstarfsflokki til annars lítils samstarfsflokks.

Valdatafl á pari við Game of Thrones

Sjálfstæðisflokkurinn er enda, þrátt fyrir allt, langstærsti flokkurinn í stjórnarsamstarfinu og óttast enn meiri niðurlægingu.
Vandinn þar á bæ er þó sá að barátta um forystu í flokknum blandast inn í málið og sú barátta er hörð. Svo hörð að minnir á þáttaröðina vinsælu Game of Thrones.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og í reynd starfandi formaður flokksins, gæti eflaust hugsað sér að leiða ríkisstjórnina fram að kosningum sem styttist í (og það hraðar en áður). Hún hefur sýnt síðustu daga að blóðið rennur þó að minnsta kosti í æðum hennar og ekki er útilokað að hinn formlegi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, geti sætt sig við slíka ráðstöfun ef hann er kominn með hugann við undankomuleiðir.

Aðrir áhugasamir formannsframbjóðendur, sem kenndir eru við Grafarvoginn, eru hins vegar ekki spenntir fyrir því að ÞKRG verði afhent forysta í ríkisstjórn og ef að líkum lætur Sjálfstæðisflokknum um leið. Þá myndu þeir sumir hverjir frekar vilja sjá stjórnina falla.

Eftir stendur þá flokkur forsætisráðherrans. Það er vart líklegt að samstarfsflokkarnir sætti sig við áframhaldandi forystu VG í ríkisstjórn eftir brotthvarf Katrínar. Það er reyndar algjörlega óhugsandi.

Önnur spurning er þó ekki síður áhugaverð. Hvers vegna ætti VG að vilja sitja áfram í ríkisstjórn við þessar aðstæður?
Væri ekki betra fyrir flokk í vörn að komast í stjórnarandstöðu, gefa fráfarandi formanni tækifæri til að taka þátt í forsetakosningum án þess að vera með óstarfhæfa ríkisstjórn á bakinu og mæta sem stjórnarandstöðuflokkur í næstu kosningar?

Skröltir hann áfram?

Öll vötn falla nú til Dýrafjarðar og gera verður því skóna, að Katrín Jakobsdóttir ætli í forsetaframboð. Annað væri hjákátlegt úr þessu. Fyrir þá sem eftir sitja verður úrvinnslan flókin og vandræðaleg og þá er stutt í kosningar og ekki bara forsetakosningar.

Þegar fylgst er með ríkisstjórninni kemur oft upp í hugann söngur Ómars Ragnarssonar um þrjú hjól undir bílnum. Alltaf skrölti bíllinn áfram og farþegarnir sungu hibbidí-hæ og hibbidí-hí á meðan þeir biðu þess að sæluhús birtist „rétt sunnan við hálsinn”.

En hjólunum fækkaði einu af öðru og ef til vill er síðasta erindið mest lýsandi fyrir ríkisstjórnina eftir að Katrín stekkur frá borði:

„Ekkert hjól undir bílnum,
hann áfram skröltir ei meir.
Hann liggur á hlið í hyldýpri á,
straumurinn gjálfrar gluggum á.
En við kyrjum á kafi í vatni og leir.
Við syngjum hibbidí-hæ og hibbidí-hí
svo bergmálar fjöllunum í.
Hérna rétt sunnan við hálsinn er sæluhús,
við gætum sofið þar öll uns birtir á ný.”