Einungis keppt í lágstökki

Í skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna sem MMR birti í gær, var enginn hástökkvari sem skar sig úr. „Virðist sú grein hafa verið sett til hliðar um hríð og einungis keppt í því hvaða flokkur gæti orðið hæstur í lágstökki,“ segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í leiðara blaðsins í dag.

„Sjálfstæðisflokkurinn mældist þannig með 19,8% fylgi sem einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar og jafnvel til bæjarins utan við hann.
Hinn burðarflokkur íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokkurinn, mældist aðeins með 8,8% fylgi og bætir þó við sig einu prósentustigi frá síðustu mælingu, sennilega eftir að hann tók afgerandi afstöðu í orkupakkamálinu,“ segir ennfremur í leiðaranum.

Þar er jafnframt vikið að minnkandi stuðningi við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

„Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar mikið á milli kannana eða um 5,3 prósentustig og minnkar stuðningurinn þannig um 16%. Það er eft- irtektarvert því ekki verður séð að ríkisstjórnin hafi fengist við erfið mál fram að þessu og eins fer fjarri að stjórnarandstaðan birtist þjóðinni sem heildstæður og sannfærandi kostur,“ skrifar ritstjóri Morgunblaðsins.