Það er líklega runnið upp fyrir flestum landsmönnum að dr. Ásgeir Jónsson er að skapa sér sinn eigin stíl sem seðlabankastjóri. Hann fer ekki með veggjum að sið ósýnilegra embættismanna, heldur veltir hann fyrir sér sagnfræði peningamála á samfélagsmiðlum og kemur reglulega í viðtöl eða flytur ræður sem athygli vekja. Meirihlutinn í borginni kann seðlabankastjóranum litlar þakkir fyrir að benda ítrekað á þjóðhagslega arðsemi þess að drífa Sundabrautina af og skipuleggja ný byggingarlönd og Viðreisn er enn að jafna sig eftir að hann gaf efnahagsstefnu flokksins þá einkunn, nokkrum dögum fyrir kosningar, að hún væri líklega „vanhugsuð“ og rotaði flokkinn og frambjóðendur hans eiginlega um leið.
Seðlabankastjórinn er gamall kennari í hagfræði og sumpart bregður hann sér í hlutverk læriföðurs þegar hann ræðir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Hann er líka góður penni og veit sem er að sagan er skrifuð af sigurvegurunum á hverjum tíma.
Prýðilegt dæmi um þetta var stórmerkilegt viðtal sem Ríkisútvarpið birti við hann í hádeginu í dag, þar sem seðlabankastjórinn/hagfræðikennarinn segir Íslendingum að nálgast þurfi húsnæðismarkaðinn með skipulagðari hætti. Hann segir beinlínis löndum sínum í viðtalinu, að þeir eigi „mjög erfitt“ með að horfa á heildarmyndina og meta hagsmuni heildstætt. Mikið vanti upp á að framboð anni eftirspurn og þar komi skipulagsmálin inn í myndina. Það vanti áætlanir til lengri tíma og kortlagningu á þeim hópum sem séu á leiðinni inn á húsnæðismarkaðinn.
Ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans frá í gær um að setja reglur um hámark greiðslubyrði fasteignalána hefur eðlilega vakið mikla athygli. Í hádegisviðtalinu bendir seðlabankastjórinn á að þetta sé gert til þess að tryggja að fólk taki ekki of mikla áhættu við fasteignakaup og lánveitendur fari ekki í of mikla samkeppni um útlán til viðskiptavina, eins og gerst hafi fyrir hrun. Segir hann hreint út að bregðist bankinn ekki við hættumerkjum nú, geti þenslan á fasteignamarkaði farið út í ógöngur á þessum vetri.
Hvað með hinn frjálsa markað og samkeppnina?
Frjáls markaður og ávinningur neytenda af samkeppni á bankamarkaði var greinilega ekki ofarlega á lista Ásgeirs og félaga í fjármálastöðugleikanefndinni (þvílíkt orð!) í gær. Líklega hefur verið Ásgeir verið ágætlega meðvitaður um eigin ábyrgð í þessum efnum og að hans hlutverk sé ekki síst að vinda ofan af þeirri þróun sem orðið hefur á hans vakt. Var það ekki annars hann, sem var aðalhagfræðingur Kaupþings sem keyrði á samkeppni við Íbúðalánasjóð í fasteignalánum á sínum tíma, var það ekki hann sem var hann einn helsti hugmyndafræðingurinn á bak við kortlagningu og gríðarleg fasteignakaup Gamma á eignum í miðborginni á árunum eftir hrun og var það ekki hann sem er höfundur þeirrar lágvaxtastefnu sem án efa hefur haft sitt að segja um síhækkandi fasteignaverð að undanförnu og gert það að verkum að landsmenn hafa ekki undan að endurfjármagna húsnæði sitt. Varla er því hægt að benda á einn mann sem ber meiri ábyrgð á því hvernig mál hafa þróast að þessu leytinu til á Íslandi undanfarin ár og þeim mun skemmtilegra er að velta fyrir sér ummælum bankastjórans í viðtalinu, þegar hann segir:
„Mér finnst –– þó Seðlabankinn eigi ekki að hafa skoðun á því –– að sú húsnæðisstefna sem byggir á því að láta fólk hafa ógeðslega mikið af lánum til að kaupa sér eignir sé ekki góð stefna.“
Það var og. Tímamótaviðtal.