Þótt enn liggi opinberlega ekkert fyrir um hrókeríngar í ríkisstjórninni eftir afsögn Bjarna Benediktssonar velta vitaskuld margir fyrir sér næstu skrefum.
Bjarni er raunar ekkert hættur sem ráðherra, það gerir hann ekki fyrr en á ríkisráðsfundi sem áætlaður er um helgina og besta dæmið um það er að Bjarni er einmitt skráður á dagskrá þingsins í fyrramálið til að veita andsvör sem fjármála- og efnahagsráðherra.
En ef veðbankar hefðu opnað fyrir það tafl sem nú stendur yfir, er næsta víst að margir telja líklegt að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins færi sig um set, jafnvel í fjármálaráðuneytið.

Að minnsta kosti var hún hvergi sjáanleg í dag þegar efnt var til móttöku fyrir ræðismenn erlendra ríkja hér á landi í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg.
Þar steig Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri (og fyrrverandi bjargvættur í knattspyrnu fyrir Eyjamenn) á stokk og bauð gesti velkomna í forföllum ráðherrans. Sagðist hann í léttum dúr ekki hafa hugmynd um hvort Þórdís Kolbrún muni nokkurn tímann koma aftur í ráðuneytið, en hafði svo góð orð um framgöngu hennar í embætti og þakkaði vel unnin störf…