„Ekki kyssa mig á almannafæri. Ekki bjóða mér höndina fyrr en í haust. Plííís,“ segir Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fv. þingmaður í athyglisverðri færslu á fésbókinni í dag.
Ólína kveðst hafa farið í Hörpuna í gær á yndislega tónleika með Víkingi Heiðari og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar og það hafi verið frábær stund, en hún er ekki hrifin af því kæruleysi gagnvart kórónuveirunni sem hún upplifði kringum tónleikana.
„EN … ég upplifði litla tillitsemi að nýafstöðnu Kófi, verð að segja það. Bæði fannst mér sætin allt of þétt skipuð í salnum, hver einasti bekkur setinn (ekki annar hver) og ekki nema eitt sæti á milli klasa (frá einu pari til annars). Fólk almennt sveif hvert á annað með kossum og handaböndum sem erfitt er að verjast þegar maður vill ekki svo náið samneyti, jafnvel við gamla góða kunninga, eins og á stendur.
Ég upplifði það mjög sterkt að tillitssemin er horfin. Fólk gleymir sér alveg. Þar með búið að varpa ábyrgðinni af smithættunni yfir á þau okkar sem megum eða viljum alls ekki smitast. Nú erum það við sem eigum að passa okkur á hinum – sem þýðir að við getum ekki mætt á mannamótin því að tillitsemin er farin. Jaðarsetning.
Þó eru ekki nema tvær eða þrjár vikur frá því slakað var á samkomutakmörkunum. Sú tilslökun var gerð með þeim tilmælum að áfram yrði virt ákveðin fjarlægð milli fólks og sýnd smitgát. — Það er ekki reyndin.
Þetta hljómar kannski eins og tuð, en ég var sannarlega að vona að ég gæti verið innan um fólk í sumar. Forsenda þess að það sé hægt er sú að tekið sé nálægðar/fjarlægðar tillit. Það er ekki víst að Kófið sé í raun afstaðið. Sumarið verður biðtími. Tilraunatími.
Ég vil faðma og kyssa börnin mín og ömmubörnin í sumar — ekki aðra. Mig langar að vera innan um fólk eins og aðrir og vil ekki vera sett í þá aðstöðu að ýta fólki frá mér eða hrökkva undan góðum vini eða kunningja í margmenni.
Ég er ekki sú eina – við skiptum þúsundum,“ segir Ólína.