Elliði í Valhöll: Sjálfstæðisfólk verður að nenna og þora að tala fyrir stefnu dagsins í dag

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Í gær var haldinn athyglisverður fundur á vegum Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Frummælandi á fundinum var Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og að margra mati einn af framtíðarforingjum flokksins og líkt og svo oft áður ræddu fundarmenn hið svokallaða „bákn“ sem mörgu borgaralegu þenkjandi fólki hefur þótt vaxa úr hófi fram.

Elliði hóf mál sitt á að skoða hið klassíska baráttumál „Báknið burt“  í sögulegu ljósi og varpa ljósi á hvernig það rataði á borð ungra sjálfstæðismanna fyrir hartnær 50 árum. Í því samhengi benti Elliði á að nú sem þá hafði það verið keppikefli sjálfstæðisfólks að vernda frelsi einstaklingsins og vinna gegn of miklum ríkisafskiptum til þess að koma í veg fyrir þá þróun að einstaklingurinn verði of háður stjórnmála- og ríkisvaldinu.

Til að sýna enn betur fram á þetta taldi Elliði upp þau 5 atriði sem slagorðin „Báknið burt“ beindist að á þeim tíma þegar þau voru fyrst sett fram:

  • Draga úr stjórnmálaafskiptum af lánakerfinu.
  • Áætlanir um ríkisfjármál væru gerð til lengri tíma en eins árs í senn.
  • Hætt yrði með niðurgreiðslur á þjónustu og gjald myndi endurspegla raunkostnað.
  • Útflutningsbætur yrðu afnumdar.
  • Ríkisfyrirtæki yrðu seld.

Vildi Elliði svo meina að sú kynslóð sem þarna var á vettvangi hafi staðið sig býsna vel og nánast unnið fullnaðarsigur hvað þetta varðar. Vandinn væri hins vegar að Sjálfstæðismenn á Íslandi væru enn með sama orðfæri og sömu áherslur nú og þá. Svona rétt eins og að knattspyrnulið lægi enn í vörn löngu eftir að hitt liðið – sem tapaði leiknum- væri komið í sturtu. Meining Elliða var að Sjálfstæðisflokkurinn og hægri menn á Íslandi hefðu enn áherslur og orðfæri sem bæru þess merki að þeir væru að berjast við Brezhnev sem þó lést árið 1982, skömmu áður en sú hugmyndafræði sem hann stóð fyrir hrundi.

Andstæðingurinn nú er kerfið

„Baráttumál okkar hægri manna eru þau sömu nú og þau hafa ætíð verið. Við viljum draga úr ríkisafskiptum. Við viljum ekki að fólk sé háð stjórnmála- og ríkisvaldinu. Við viljum vernda frelsi einstaklingsins. Ógnin núna er hins vegar ekki Breznev eða sósíalismi eftirstríðsáranna. Andstæðingurinn nú er kerfið. Eftirlitskerfið. Leyfisveitingakerfið. Kerfið sem lætur framtakssömu fólki líða eins og það sé að synda í sírópsfeni þegar það reynir að finna kröftum sínum og vilja farveg. Tíndi Elliði í kjölfarið til fjöldann allan af dæmum úr samtímanum til að sýna fram á hið mikla umfang leyfisveitinga og eftirlitskerfisins sem síðan er jú ætíð fjármagnað með endalaust hærri sköttum.

Elliði hvatti síðan fundarmenn til að styðja við þá hugmynd að hægri menn á Íslandi uppfæri tungutak sitt og áherslur. Þótt sannarlega þurfi að standa vaktina gagnvar þeirri ógn sem fólgin er í sósíalisma þá er ógnin önnur í dag, „kerfið“. Hann velti því síðan fyrir sér hvort ekki sé þörf fyrir nýtt slagorð svo sem „Kerfið er of erfitt“.

Niðurstaða Elliða í framhaldi af kjarnyrtri framsögu var:

  • Sjálfstæðisfólk þarf að uppfæra stefnu sína og tungutak. Það er ekki lengur árið 1977.
  • Baráttan gegn bákninu er ekki orðin óþörf. Víglínurnar hafa færst. Kerfisvæðingin er sambærileg ógn við frelsið og sósíalisminn var á sínum tíma.
  • Sjálfstæðisfólk verður að nenna og þora að tala fyrir stefnu dagsins í dag.
  • Í fáan annan tíma hefur verið eins mikil þörf fyrir hægri stefnu og í dag.

Fundinum lauk með mikilli og góðri umræðu. Það skyldi þó ekki vera að Sjálfstæðismenn séu að vakna til lífs um að fylgið er botnfrosið og án breytinga togast það ekki upp. Líklega höfum við ekki heyrt það síðasta frá Elliða Vignissyni í þeim efnum…