„Elliheimilið Grund“ svarar fyrir sig með eftirminnilegum hætti

KR-ingar tóku við Íslandsmeistarabikarnum á heimavelli í dag eftir 3:2-sigur á FH í markaleik og er langt síðan titillinn hefur unnist með jafn miklum yfirburðum.

Fyrir mótið var talið að Valsmenn myndu verja titiilinn, enda með gríðarlega dýrt lið, auk þess sem FH, Stjarnan og Breiðablik voru taldir mögulegir keppinautar Hlíðarendapilta. Niðurstaðan er enn ein rós í hnappagat Rúnars Kristinssonar sem þjálfara, en hann hefur landað mörgum titlum sem þjálfari Vesturbæjarliðsins.

Árangur Rúnars og félaga er ekki síst glæsilegur, þar sem sparkspekingar áttu fyrirfram ekki von á miklum afrekum KR-inga og gekk Hjörvar Hafliðason fjölmiðlamaður (eða Dr. Football, eins og hann kallar sig á vinsælu hlaðvarpi) svo langt að uppnefna KR-inga sem „Elliheimilið Grund“, þar sem meðalaldur liðsins væru svo hár og gamlar kempur áberandi í helstu hlutverkum.

Tveir reynslumestu leikmenn nýkrýndra Íslandsmeistara svöruðu eftirminnilega fyrir sig með því að stilla sér upp á Hringbrautinni fyrir framan Grund með bikarinn góða að verðlaunaafhendingunni lokinni í Vesturbænum í dag.

Brynjólfur Þór Guðmundsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu og þekktur Skagamaður, sagði enda á fésbók í dag:

„Þetta er hugsanlega fyndnasta Íslandsmeistaramynd allra tíma.“

Undir það skal tekið. Svona á að svara fyrir sig!