En hvað með fjölbreytni og samkeppni?

Hugleiðing dagsins er í boði hagfræðiprófessorsins Jóns Steinssonar, sem starfar við Berkeley-háskólann í Bandaríkjunum, en fregnir af fyrirhugaðri sameiningu MA og VMA á Akureyri hafa vakið mikla athygli og eru ansi skiptar skoðanir.

Jón skrifar:

„Stjórnvöld á Íslandi eru óskaplega hrifin af því að sameina stofnanir. Alltaf sömu rökin: aukin hagkvæmni. En hvað með fjölbreytni og samkeppni? Það er erfiðara að meta slíkt til fjár og því verða slík sjónarmið undir. En ég held að stundum sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni í þessu sambandi.

Smá samlegðarhagkvæmni er peanuts í samanburði við það sem getur glatast hvað varðar fjölbreytni og samkeppni. Sameining spítalana í Reykjavík er gott dæmi. Og nú er móðins að sameina skóla. En er einhver samkeppni? Jú, samkeppni þarf ekki að snúast um verð. Samkeppni getur snúist um gæði. Spítalar og skólar geta keppst um starfsfólk og keppst um það hver er að veita bestu þjónustuna og er með besta starfsandann. Allt glatast þetta ef allar stofnanir eru sameinaðar.

Ég er ekki hrifinn af núverandi pælingum um að sameina framhaldsskóla af þessu ástæðum. T.d., MA og VMA hafa mismunandi kúltúr og mismunandi áherslur. Það bætir heildargæði skólakerfisins að þessar mismunandi áherslur séu til staðar. Ég óttast að það muni glatast á altari þess að spara eitthverja smáaura í yfirstjórn hins nýja skóla.“