Enginn heiðvirður blaðamaður getur leitað til Vísindavefjarins um slíkt

Andrés Magnússon blaðamaður.

Andrés Magnússon fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins er harðorður í garð nefndar þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu í pistli dagsins og vitnar í tilkynningu frá Embætti landlæknis, þar sem vísað var til þess að misvísandi og rangar upplýsingar um COVID-19-faraldurinn, einkum á samfélagsmiðlum, séu alþjóðlegt vandamál og mikilvægt að fjölmiðlar og almenningur geti staðreynt þær upplýsingar sem berast hratt um heiminn.

Því hafi verið komið á samstarfi Vísindavefs Háskóla Íslands og vinnuhópa þjóðaröryggisráðs sem sé ætlað að greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti leitað staðfestingar á upplýsingum sem berast til þeirra með sambærilegum hætti og gert er í mörgum öðrum ríkjum sem Ísland er í samstarfi við á ýmsum sviðum. Samstarfið feli einnig í sér að fjölmiðlar geti leitað til vísindamanna með milligöngu ritstjórnar Vísindavefsins um að staðreyna upplýsingar er varða heimsfaraldurinn.

Þessu tekur Andrés fjölmiðlarýnir ekki beinlínis fagnandi í pistli sínum:

„Það er að vísu frekar óljóst hverju samstarfið breytir, því í tilkynningu landlæknis er aðallega talað um verkefni, sem Vísindavefurinn hefur til þessa sinnt án atbeina Sannleiksráðuneytis Katrínar. Hins vegar er reifuð hugmynd um að fjölmiðlar og blaðamenn geti leitað til ritnefndar Vísindavefsins um staðreyndavöktun á fréttum sem tengjast faraldrinum og að embætti landlæknis og Vísindavefurinn vinni saman að því að svara og halda utan um fyrirspurnir.

Enginn heiðvirður blaðamaður getur leitað til Vísindavefjarins um slíkt.

Ekki vegna þess að Vísindavefurinn sé ekki góðra gjalda verður, heldur einmitt vegna hins, að hin holdsveika hönd upplýsingaóreiðuhóps Katrínar hefur snortið hann og sýkt.”