Enn áskilnaður um leyfi og vottorð eigendafélags Sjálfstæðisflokksins

Dr. Ólafur Ísleifsson alþingismaður. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, segir skrif Björns Bjarnasonar fv. ráðherra, sýna að ekkert hafi breyst frá því hann tók þátt í störfum Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.

Ólafur skrifaði grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hann gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir að liggja flatur fyrir dyntum Vinstri grænna í öryggis- og varnarmálum og láta viðgangast að ekki megi byggja upp mikilvæg varnarmannvirki í Helguvík til að styggja ekki samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.

Við þessu brást Björn Bjarnason, sem nú er formaður Varðbergs, á vefsíðu sinni í gær og rifjaði upp að Ólafur hafi á sínum boðið sig fram til trúnaðarstarfa innan Sjálfstæðisflokksins án þess að hljóta brautargengi, farið inn á þing sem frambjóðandi Flokks fólksins en sitji nú í þingflokki Miðflokksins. Sagði hann grein Ólafs „púðurskot“ og engar formlegar tillögur sem lúta að varnarsamstarfinu hafi komið fram, hvað þá verið hafnað.

Ólafur segir skrif Björns staðfesta hve vandræðalegt málið er fyrir Sjálfstæðisflokkinn í samstarfinu við Vinstri græna. Með þögninni staðfesti Björn að Sigríði Á. Andersen hafi verið vikið úr embætti dómsmálaráðherra að kröfu forystu VG.

Björn Bjarnason. Ljósmynd Viljans/Erna Ýr Öldudóttir

„Björn rifjar upp að fyrir margt löngu tók ég þátt í störfum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Björn staðfestir að frá þeim tíma hefur ekkert hefur breyst: Af hálfu eigendafélags Sjálfstæðisflokksins er áfram áskilnaður um að menn hafi þaðan leyfi og vottorð til að mega taka þátt í störfum í stjórnmálum,“ bætir hann við á fésbókarsíðu sinni.