Enn eitt ruglið í kerfinu: Til verða biðlistar til að komast á biðlistana

Athyglisvert var að lesa í Mogganum í morgun um tregðuna í heilbrigðiskerfinu við það að nýta heilbrigða skynsemi og opinbera fjármuni sem best við að stytta hina óþolandi biðlista eftir liðskiptaaðgerðum.

Kerfishugsunin hefur lengst af verið allsráðandi í heilbrigðismálunum, þar sem Vinstri grænir heilbrigðisráðherrar töldu skynsamlegra að kaupa slíka þjónustu hjá íslenskum lækni í einkarekstri í Svíþjóð með tilheyrandi kostnaði en gefa þjáðu fólki kost á því að komast undir hnífinn hjá sama lækni í Klíníkinni í Ármúlanum. Ótrúlegt var að fylgjast með getuleysi hinna stjórnarflokkanna við að vinda ofan af þeirri vitleysu.

Það er eins og fólk gleymi því að biðlistar ættu ekki að vera til. Fólk sem er veikt á að fá þjónustu og ef þarf að kalla til fleiri aðila en Landspítalann til að veita hana, þá á að gera það.

En nú hefur Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sýnt lífsmark á ýmsum sviðum og er þessa dagana bjartasti lampinn í heldur daufi ljósi ríkisstjórnarinnar. Willum Þór þarf að taka á sig rögg og nýta betur samstarf við lækna í einkarekstri til að stytta biðlista og lina þjáningar fólks sem bíður og bíður.

Í Mogganum segir að tvö einka­rek­in heil­brigðis­fyr­ir­tæki fá ekki aðgang að upp­lýs­ing­um um það hverj­ir eru á op­in­ber­um biðlist­um eft­ir liðskiptaaðgerðum. „Fyr­ir­tæk­in, Klíník­in og Cos­an, urðu hlut­skörp­ust í útboði á aðgerðunum og skrifað var und­ir samn­inga við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands í byrj­un apríl sl. Samn­ing­arn­ir gilda til loka árs­ins. Mark­miðið var að stytta biðlista enda hafa þeir verið að lengj­ast og sjúk­ling­ar neyðst að sækja sér heil­brigðisþjón­ustu í öðrum lönd­um, með ærn­um kostnaði, einkum í Svíþjóð.

Hæg­ar hef­ur gengið að stytta biðlist­ana en áætlað var, sér­stak­lega vegna þess að þeir sem þurfa á aðgerð að halda vita ekki að þeir eigi rétt á henni og þeir sem fram­kvæma aðgerðirn­ar fá ekki upp­lýs­ing­ar um það hverj­ir þurfa á aðgerð að halda. Fólk þarf því að bera sig sjálft eft­ir björg­inni en Sjúkra­trygg­ing­ar vöktu at­hygli á því í vik­unni að lít­ill hluti fólks­ins hefði þegið boð um aðgerð sem voru send í gegn­um Heilsu­veru.

Biðin eft­ir aðgerð er löng þrátt fyr­ir átak heil­brigðis­yf­ir­valda sem kynnt var með áber­andi hætti. „Sjúk­ling­ar sem fá til­vís­un á Land­spít­al­an­um á liðskiptaaðgerð fá bréf ein­hverj­um vik­um eft­ir að til­vís­un­in var send, þar sem er reiknað með sex til átta mánaða bið eft­ir viðtali. Þú ert ekki kom­inn á biðlista hjá viðkom­andi stofn­un fyrr en eft­ir viðtal hjá lækni,“seg­ir Hjálm­ar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Klíník­inni. Því má segja að til staðar séu biðlist­ar inn á biðlist­ana.“

Þetta er auðvitað íslenska kerfishugsunin eins og hún gerist verst. Fyrst er tregðan við samstarfið við einkaframtakið, en þegar loksins er látið undan og eitthvað á að gera, þá hleður kerfið inn skilyrðum sem verða vandamál í sjálfu sér og eyðileggja markmið ráðherrans um að taka loksins á vandamálinu.

Til verða biðlistar til að komast á biðlistana. í alvöru? Á meðan bíður verkjað fólk og fær ekki bót sinna meina. Hvað á þessi vitleysa eiginlega að vara lengi í boði ríkisstjórnarflokkanna?