Fréttablaðið gagnrýnir þríeykið harkalega í einum leiðaranum enn í dag og fylgir Jón Þórisson aðalritstjóri eftir forystugrein blaðsins í gær, þar sem Hörður Ægisson fann sóttvarnaráðstöfunum stjórnvalda flest til foráttu.
Fréttablaðið segir í leiðara dagsins að „ein sú mest íþyngjandi ráðstöfun sem gripið er til í samfélagi manna“ sé „að svipta þá frelsi sínu.“ Til þess þurfi að liggja ríkar ástæður og ákvörðunin að styðjast við skýr lagafyrirmæli.
„Um þessar mundir eru þúsundir manna sviptir frelsinu hérlendis og þeim skipað í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga. Að auki hefur frelsi hinna verið stórkostlega skert með því að setja fjöldamörk á samkomur, mæla fyrir um lágmarksfjarlægð á milli fólks, banna eða takmarka ýmiss konar starfsemi, svo sem íþróttastarfsemi og veitingahúsarekstur og tilmæli um að halda sig í heimahögum. Þá er ónefnt það misráð að loka landamærum,“ skrifar Jón og bendir á að allar séu þessar aðgerðir byggðar á minnisblöðum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra, sem eftir atvikum ræði þær í ríkisstjórn áður en þær öðlast gildi stjórnvaldsfyrirmæla. Einhver misbrestur hafi þó orðið á því síðastnefnda undanfarið.
Jón vekur því næst athygli á því að ritstjóri Viljans spurði þríeykið út í forsíðufrétt Fréttablaðsins í vikunni, þar sem sagt var frá óeiningu innan stjórnarflokkanna um aðgerðir sóttvarnayfirvalda. Er hann augsýnilega lítt hrifinn af þeim svörum sem komu fram í máli Víðis Reynissonar og Þórólfs Guðnasonar:
„Ákvarðanir stjórnvalda í tengslum við sóttvarnir undanfarið hafa sumsé byggst á minnisblaði. Nær án undantekninga hafa þær ákvarðanir verið samhljóða minnisblaðinu.
Nú er rétt að fram komi að gengið er út frá að allir sem að þessu máli koma séu að reyna sitt besta í baráttunni við óhræsið, en þetta fyrirkomulag er óheppilegt og þegar svo langur tími líður þar sem takmörkunum og frelsisskerðingum er beitt án afláts, eykst krafan um að til kasta Alþings komi.
Í Fréttablaðinu í vikunni var greint frá því að efasemda gætti meðal þingmanna og ráðherra eins af stjórnarflokkunum um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra og hvernig að þeim er staðið. Í kjölfarið var haft eftir sóttvarnalækni og yfirlögregluþjóni úr þríeykinu að þjóðin þurfi að flykkjast að baki aðgerðunum, líkt og landsliði í kappleik. Lítið var gert úr fréttinni með því að fullyrða að úr lausu lofti sé gripið að óeining sé um aðgerðirnar og það sé orðum aukið.
Sérstakur kapítuli út af fyrir sig er hvað menn segja frammi fyrir myndavélum, en ummælin hljóta að teljast sérkennileg. Með þeim hefur verið stigið langt út fyrir verksvið þeirra sem létu þau um munn sér fara.

Ákall um samstöðu er góðra gjalda vert en þegar ekki er betur gengið um grundvallarmannréttindi er við því að búast að samstaðan bili.
Þá verða ráðstafanirnar úr lausu lofti gripnar,“ segir Jón í leiðara sínum.
Akademísk umræða um frelsi á ekki við nú
Metsöluhöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson nálgast farsóttina og viðbrögð við henni hér á landi hins vegar úr allt annarri átt í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann skrifar:
„Á fyrstu dögum marsmánaðar var ég staddur á góðgerðarsamkomu í New York. Þar var glatt á hjalla þótt talið bærist öðru hverju að veirunni sem nýlega hafði sprottið upp í Wuhan í Kína. Sprittbrúsum hafði verið komið fyrir við innganginn, annað var það ekki. Um kvöldið átti ég meðal annars fjörugt spjall við tvö landsfræg leikskáld sem bæði höfðu verið viðriðin leikhúsið sem gestir voru komnir til að styrkja. Við töluðum um næsta leikár, lífið og tilveruna. Mánuði síðar voru þessir menn látnir. Annar um áttrætt, hinn á sextugsaldri. Sá eldri hafði fyrir nokkrum árum unnið bug á illvígum sjúkdómi. Sá yngri var hraustur og bar það með sér að hann lagði rækt við líkamann. Hvorugur þeirra hagaði sér eitthvað öðruvísi en ég þetta kvöld. Ég var bara heppinn.
Þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir vorum við Íslendingar óviðbúnir eins og mestallur heimurinn en gripum skjótt til varna. Við gerðum það sem fyrir okkur var lagt. Orð þríeykisins voru guðspjöll dagsins. Hér ríkti samstaða og það fólk sem lagði sig í líma – og hættu – til að verja okkur hin og sinna þeim sem veiktust fékk það þakklæti sem það átti skilið. Veiran var að miklu leyti kveðin niður og líf margra færðist nær vanahorfi. Úti í heimi var dáðst að framgangi okkar.
Nú erum við stödd í nýrri bylgju og ólíkt því sem áður var erum við ekki samstiga lengur. Það er stutt í þræturnar sem við getum verið svo dugleg við. Sóttvarnalæknir er talinn ganga of langt. Þríeykið þarf að tönnlast á sömu leiðbeiningunum við okkur eins og ungling á mótþróaskeiði. Það spyrst út að óeining sé í ríkisstjórn. Og spekúlöntum og sumum stjórnmálamönnum þykir þetta heppilegur tími, nú þegar faraldurinn geisar og sjúkrahús eru byrjuð að fyllast, að viðra kenningar sínar um frelsi einstaklingsins sem þeir lásu kannski um þegar þeir voru ungir og móttækilegir en eiga lítið erindi í því stríði sem nú er háð – við óvin sem kann ekki einu sinni þá kurteisi að klæðast einkennisbúningi svo við sjáum hann á færi.

Kvittur um óeiningu meðal þess fólks sem er kosið til að leiða þjóðina er ekki hjálplegur. Og akademískar hugleiðingar um frelsi eru best geymdar þar til þessi plága er gengin yfir.
Upp á okkur hin stendur að hrökkva í sama far og í vor. Fara eftir einföldum leiðbeiningum. Þó ekki væri nema til að vernda þá sem eiga það á hættu að veikjast illa. Kannski er það líka aukinn hvati að minnast þess að það gætum verið við sjálf sem stæðum í þeim sporum – ef marka má reynsluna, þar á meðal mína af góðgerðarsamkomunni í vor. Þar hagaði ég mér í einu og öllu eins og þeir sem nú eru ekki lengur á meðal okkar.“