Er að teiknast upp einvígi þriggja kvenna um Bessastaði?

Úr kappræðum Stöðvar 2.

Þrjár mismunandi og misvísandi skoðanakannanir sem birtust í gær um fylgi forsetaframbjóðenda gefa einhverjar vísbendingar um stöðuna daginn fyrir kjördag, en samt er ekki hægt að fullyrða að línur hafi skýrst neitt verulega.

Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra var efst og með nokkuð forskot í könnun Félagsvísindastofnunar, en þar komu Halla Tómasdóttir og Halla Hrund Logadóttir næstar.

Halla Tómasdóttir var efst í könnunum Prósents og Maskínu, en þær Katrín og Halla Hrund stutt á eftir og allt vel innan tölfræðilegra skekkjumarka.

Hægt er þó að slá því föstu, að þessar þrjár konur mælist með meira fylgi en aðrir frambjóðendur. Þannig virðist Baldur Þórhallsson hafa sigið niður í fjórða sætið, Jón Gnarr í fimmta sætið og Arnar Þór Jónsson í það sjötta.

Því má halda það fram að mestar líkur séu á því að kona verði næsti forseti lýðveldisins, þótt auðvitað sé ekki hægt að útiloka að Baldur eða Jón taki sögulegan endasprett. Halla Tómasdóttir virðist sækja mest í sig veðrið, ef marka má kannanir, og Katrín Jakobsdóttir hefur fastasta kjarnafylgið meðan Halla Hrund hefur sigið í fylgi, eftir að hafa farið með himinskautum í upphafi mánaðar.

Leiðtogaumræður á RÚV í kvöld geta ráðið miklu, enda margir enn eftir að gera upp sinn hug og munu sjálfsagt ekki gera fyrr en í kjörklefanum. Útlit er því fyrir sögulega spennandi kosninganótt…