Nú þegar fregnir berast af því að til standi að undirrita samkomulag á næstu dögum um tugmilljarða fjárfestingar ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vegna uppbyggingar borgarlínu, er ekki laust við að margir spyrji sig áleitinna spurninga.
Einn þeirra er markaðsmaðurinn mikli, Baldvin Jónsson, sem svo vill til að er einmitt tengdafaðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Hann skrifar mikla ádrepu á fésbókina og segir:
„Nú er fyrir alvöru hafin umræða um borgarlínu. Svo virðist sem enginn viti í raun og veru hvernig standa eigi að þessari framkvæmd. Ekki hvernig eigi að fjármagna fyrirbrigðið og enn síður hvaða faratæki eigi að aka um línuna. Hef ekki hitt nokkurn mann sem getur útskýrt fyrir mér hvaða markmiðum sé stefnt að því að ná.“
Baldvin bendir á að hafin sé mesta bylting í samgöngum í sögunni. Sjálfakandi bílar eru komnir í umferð og allir bílaframleiðendur hafi sett sér ný markmið en þau eru í stórum dráttum þau að fyrirtækin sjá sig sem lausnamiðaða framleiðendur samgöngutækja. Allt frá hlaupahjólum til langferða og flutningstækja. Flestir veðja á rafmagnið sem orkugjafann þó í bland með vetni, metan og blöndungum.
„Hverig væri nú fyrir stjórnvöld og sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að leita lausna með ökutækjaframleiðendum og þeim sem vinna að framtíðarskipulagi samgangna í heiminum? Þar er allt fullt af góðum hugmyndum þar sem saman fara skipulagsmál og framleiðsla. Það væri til dæmis ekki vitlaust að fá framleiðendur og innflytjendur ökutækja með í hópinn, sem og fulltrúa bifreiðaeigenda. Nýta sambönd okkar við Evrópu, Ameríku og Asíu?
Hér er um að ræða milljarða framkvæmd og með ólíkindum að þeir sem staðið hafa að samþykkt þessa verkfnis skuli ekki, að því er virðist, hafa umboð kjósenda né getað kynnt á skilmerkilegan hátt hvaða framkvæmd er hér í gangi. Er þetta verkefni að verða eitt mesta klúður allra tíma, á kostnað hvers?“
Það er að minnsta kosti ljóst að fjármálaráðherra hefur ekki tekist að sannfæra alla við kvöldverðarborðið heima um ágæti þess að setja milljarðatugi úr ríkiskassanum í borgarlínuna á næstu árum.
Margt bendir raunar til þess að hann sé ekki mjög sannfærður sjálfur um ágæti þessa risaverkefnis.
Af hverju er þá haldið áfram?